„…að reyna að leiðrétta í litlum skrefum það óréttlæti sem er enn innbyggt í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.“
„Ég trúi á markaðinn. Ég trúi því að markaðurinn sé betri til að ákveða verðið á makrílnum en stjórnmálamenn, eftir því hvernig þeir vakna upp hverju sinni og hvernig stöðu þeir eru í hverju sinni. Ég treysti því frekar að markaðurinn ákveði og finni hið rétta verð, hið sanngjarna verð. Því að erfitt er fyrir okkur að meta það hvað er hið sanngjarna verð,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, þegar tekist var á um makrílkvótann á Alþingi, og úthlutun hans.
Þorgerður Katrín reyndi að höfða til Vinstri grænna:
„Ég er kannski ekki að setja fram miklar kröfur hvað það varðar gagnvart Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, en ég hefði talið eðlilegt að Vinstri græn hefðu a.m.k. sett fram einhverjar skoðanir eða tekið umræðu um að fara í tímabundna samninga, að ég tali ekki um markaðsleið þegar kemur að makrílnum. Það hefur því komið fram að sá metnaður var ekki til staðar.“
Hún sagði einstakt tækifæri blasa við til lagfæringa á kvótakerfinu: „Hér er einstakt tækifæri fyrir þingið og þær réttlætistaugar sem tikka vonandi einhvers staðar enn þá meðal þingmanna stjórnarflokkanna í þessu máli, að reyna að leiðrétta í litlum skrefum það óréttlæti sem er enn innbyggt í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.“
Meira um markaðinn: „Ég sakna þess að ekki skuli vera metnaður hjá markaðssinnuðum flokkum, alla vega á hátíðarstundum, að þeir taki skref og segi: Allt í lagi við skulum reyna að koma til móts við það að reyna að ná einhverri sátt. Tökum lítil skref, en tökum þau í tengslum við makrílinn.“