- Advertisement -

Ég stend með flugfreyjum

Valdastétt þessa lands situr þögul hjá og gerir ekkert til að aðstoða flugfreyjur.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Flugfreyjur standa nú í stórkostlega erfiðri baráttu. Á þær á að leggja hræðilegar byrðar; ábyrgðina á að fórna réttindum sem áratuga barátta hefur fært þeim. Auðstéttin ætlar eins og ávallt að ákveða á algjörlega ólýðræðislegan hátt hvaða áhrif þessi kreppa hefur á vinnuaflið. Og valdastétt þessa lands situr þögul hjá og gerir ekkert til að aðstoða flugfreyjur.

Afhjúpunin heldur áfram. Nú kemur í ljós hvað það raunverulega þýðir að við séum öll í þessu saman; við eigum öll að vera í því saman að tryggja að valdaójafnvægið haldist óbreytt, að stjórar og eigendur fyrirtækjanna hafi á endanum allt um allt að segja og hafi þess vegna valdið til að þröngva samningum upp á fólk sem það vill ekki. Ég og félagar mínir í Eflingu þekkjum það ömurlega andlega ofbeldi betur en flestir á þessu landi. Í tvö ár höfum við þurft að hlusta á það því sem næst stanslaust að barátta okkur fyrir efnahagslegu réttlæti sé hryllileg ógæfa. Okkur hefur verið stillt upp sem óvinum þjóðarinnar. Láglaunakonan hefur verið gerð ábyrg fyrir því sem næst öllu; viðhald stöðugleikans hefur oftar en ekki verið alfarið á hennar vinnulúnu herðum. Margmilljón-króna mennirnir hafa staðið þétt saman í að reyna að kremja réttlætisbaráttu kven-vinnuaflsins. En við höfum ekki látið það á okkur fá. Og sameinuð og staðföst höfum við náð að knýja fram viðurkenningu á því að sögulega vanmetin kvennastörf ættu inni sína leiðréttingu. Það var erfitt en það tókst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

. Á þessu hafa vinnandi konur áttað sig.

Ég læt hér fylgja hlekk á góða grein Þórarins Hjartarsonar um stéttabaráttu í kjölfar Covid þar sem hann bendir m.a. á þessa staðreynd sem ætti að vera augljós öllum:
„Talskonur flugfreyja benda á að kjaraskerðingarstefna Icelandair sé ekki alveg ný: „þeir eru búnir að bjóða nánast sömu samninga síðan haustið 2018 og það er ástæðan fyrir að ekki hefur verið samið.“ En með tilkomu Covid-19 getur Icelandair sett margfalt afl á bak við kjaraskerðingarkröfur sínar. Nákvæmlega eins og Naomi Klein lýsir er það til að „knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja“. Markmiðið er að sjokkera fólk til undirgefni, Covid-19 er verkfærið.“

Í greininni kemur það fram sem ég vildi sagt hafa um baráttu FFÍ og stöðu vinnandi fólks í hnattvæddri veröld, og ég hvet ykkur til að lesa hana. Það er þó eitt sem ekki er minnst á og ég tel mjög þarft að nefna. Og það er mikilvægi kvennasamstöðunnar og áhrif kvennabaráttunnar. Ég held að einn af stóru og mikilvægu þáttunum í baráttuvilja og staðfestu flugfreyja sé sú bylgja kvennauppreisnar sem gengur yfir veröldina og ekki sér fyrir endann á. Kven-vinnuaflið stígur nú fram um allan heim og bendir á mikilvægi sitt. Berst fyrir því að mikilvægið fáist alfarið viðukennt og að látið verði af þeirri kerfisbundnu undir-verðlagningu sem tíðkast hefur á konum og konu-störfum, berst fyrir því að kynbundin lítillækkun, ofbeldi og áreiti verði gert útlægt af vinnumarkaði. Stéttabarátta kvenna er um þessar mundir sú róttækasta og sú djarfasta. Vinnandi konur hafa, þrátt fyrir allar lagasetningar, jafnlaunavottanir, kven-leiðtoga og svo framvegis, þurft að horfast í augu við að ekkert tilefni þykir til þess að verðmeta hefðbundin kvennastörf betur en áður. Það er vegna þess að kapítalískt efnahagskerfi mun aldrei sleppa hendinni af ódýru vinnuafli nema tilneytt. Ef við ætlum okkur að fá meira frelsi, meira efnahagslegt réttlæti, þurfum við alvöru stéttabaráttu. Á þessu hafa vinnandi konur áttað sig. Staðreyndin er sú að kvennastéttir eru yfirleitt fyrstar til að finna fyrir niðurskurðarhnífnum og hagræðingarhakkavélinni. Konur streyma inn í Virk vegna þess að við vinnum í líkamlega og andlega erfiðum störfum, störfum sem oft taka frá okkur allan kraftinn okkar og skilja okkur eftir veikar. Samfélög hafa verið í afneitun yfir því hversu erfið kvenna-störf eru, hversu endalaust af vöðvaafli við notum og hversu mikið af tilfinningum okkar þarf til að knýja áfram hjól atvinnulífsins.

Valdaójafnvægið er hræðilegt.

En við sjálfar erum ekki lengur í afneitun. Við sjálfar höfum horft í spegilinn og séð að við erum ómissandi; ómissandi fyrir verðmætasköpun, ómissandi við kerfið, ómissandi fyrir þá sem hafa grætt endalaust á vinnu okkar. Og við ætlum ekki lengur að láta stjórnana komast upp með að láta sem að við séum það ekki. Við ætlum ekki að láta þá komast upp með að láta eins og við séum ógæfa, byrði, mara, vandamál. Þvert á móti snúum við okkur að stjórunum og segjum hátt og snjallt: „Þið eruð byrðin. Þið hafið notað vinnuaflið okkar til að sópa til ykkar auðæfum og völdum. Þið hafið komist upp með að láta eins og þið væruð það sem allt snýst um. En við höfum séð í gegnum ykkur. Það hvort þið eruð þarna eða ekki skiptir engu máli. Maður kemur sannarlega í manns stað. En í stað kven-vinnuaflsins kemur ekkert, án kven-vinnuaflsins gerist ekkert. Það er staðreynd.“

Ég horfi yfir vinnumarkaðinn með femínískum stéttabaráttu-gleraugum. Ég veit að barátta okkar er rétt að byrja og við eigum eftir að taka ótalmarga slagi. Við eigum eftir að þurfa að berjast fyrir því að ríkisvaldið fari ekki í niðurskurð á okkar kostnað. Við eigum eftir að þurfa að berjast fyrir því að á okkur sé hlustað og eftir okkar vilja sé farið. En þrátt fyrir þá erfiðleika sem við okkur blasa og þá stöðu sem við erum í ætla ég að segja að ég hef trú á því að róttæk barátta vinnandi kvenna, samstaða og staðfesta muni skila okkur árangri. Geti búið til réttlátara samfélag.

Flugfreyjur standa í stórkostlega erfiðri baráttu. Það er ekki auðvelt að vera bjartsýn fyrir þeirra hönd. Valdaójafnvægið er hræðilegt. Kvennastétt gegn Auðvaldinu. Ég get varla ímyndað mér hvernig þeim líður. En ég veit að þær eiga allan minn stuðning skilið. Og okkar allra. Þær eru í raun að taka slaginn fyrir okkur öll, vinnandi fólk. Um það hvað stjórarnir komast upp með þegar kreppan mætir enn eina ferðina. Við hljótum öll að senda kveðju til þeirra: Gangi ykkur vel, við erum sannarlega öll í þessu með ykkur.
Áfram stelpur!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: