Alþingi
„Háttvirtur þingmaður spyr um afstöðu flokksins til útlendingalaga. Ég held sömuleiðis að háttvirtum þingmanni ætti að vera að fullu ljóst hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er til þessa málaflokks, enda hafa þingmenn flokksins ekki farið í grafgötur með þá skoðun sína, hvorki síðustu daga, vikur, mánuði eða fyrri ár, og hefur Sjálfstæðisflokkurinn margítrekað reynt að koma fram breytingum á lögum um útlendinga til að mæta krefjandi stöðu í málaflokknum. Þetta er málaflokkur sem krefst þess. Hann er síkvikur og það þarf alltaf að gera breytingar á útlendingalögum á hverjum tíma. Það hafa löndin í kringum okkur gert og þannig vill sá ráðherra sem hér stendur einnig vinna,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi, þegar hún svaraði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
„Hvað varðar þær öryggisráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hafa gert varðandi þann hóp sem bíður fjölskyldusameiningar á Gaza, þá hefur utanríkisráðherra sent lista með nöfnum til stjórnvalda í Egyptalandi og mér er ekki kunnugt um niðurstöðu þarlendra stjórnvalda á þeim lista,“ bætti hún við.
Þá steig Sigmundur Davíð í ræðustólinn:
„Ég skil ekki enn afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli því að orðin eru oft svo ólík gjörðunum. Sjálfstæðisflokkurinn lék aðalhlutverkið, hann skrifaði handritið, hann skrifaði lögin og dansana þótt hæstvirtur forsætisráðherra hafi hugsanlega séð um leikstjórn síðustu árin. Meira að segja landsfundur Sjálfstæðismanna minnti þá á að kannski væru einhverjir menn þar að gerast aðeins of lokaðir í þessum málaflokki og samþykkti stefnu undir yfirskriftinni Bjóðum þau velkomin. En hvað um það, ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar eins og Samfylkingin að skipta um áherslur í þessu þá fagna ég því. Ég hins vegar bið um skýrari svör við spurningum mínum um öryggisráðstafanir. Er það svo að íslensk stjórnvöld hafi sent egypskum stjórnvöldum einhvern lista yfir fólk sem stjórnvöld þar í landi hafa hugsanlega ekki hugmynd um hvert er og hafa íslensk stjórnvöld samhliða því sent ísraelskum stjórnvöldum lista yfir það fólk sem til stendur að flytja til Íslands?“
Skiptum aftur yfir á Guðrúnu ráðherra:
„Eins og ég sagði í fyrra svari mínu hefur utanríkisráðherra fengið afhentan lista hjá Útlendingastofnun með nöfnum þeirra einstaklinga sem hafa fengið samþykkta fjölskyldusameiningu. Utanríkisráðherra hefur upplýst um það að hann hafi sent þennan lista til stjórnvalda í Egyptalandi og þau hafa hann í fórum sínum. Ég geri ráð fyrir því að þau hafi nú einhvers konar vinnulag með það, því að eins og háttvirtur þingmaður nefnir þá hafa fleiri ríki sent lista með nöfnum ríkisborgara, dvalarleyfishafa eða aðstandenda sinna sem þau hafa reynt að koma yfir landamæri. Það er einhver tími liðinn síðan þessi listi barst þarlendum stjórnvöldum og hann er líklega þar í meðförum þeirra. Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það vinnulag er en geri ráð fyrir að það muni skýrast í mjög náinni framtíð hver niðurstaða egypskra stjórnvalda er hvað þetta varðar.“