Mannlíf

Ég hef pissað í miðbænum

By Miðjan

June 18, 2021

Þegar ég var unglingur, reyndar byrjaður á sjó, var ég í miðbænum að nóttu til. Einhver hafði brotið gat á rúðu í Eymundsson í Austurstræti. Mér var mál að pissa og tók upp á því að pissa inn um gatið. Ætlaði að hæfa Atlas var stillt upp í innan við gluggann. Í þann mund sem ég byrjaði að pissa kom löggan og tók mig fastan. Sá tilkynnti mér að hann ætlaði mig upp á stöð.

Þá kom Sæmi rokk sem var á vaktinni þetta kvöld. Hann spurði vinnufélaga sinn hvað ég hefði gert af  mér. Sá sagði að ég hefði pissað inn um gluggann á Eymundsson. Sæmi sagðist sjá um mig. Hann lagði handlegginn yfir öxlina á mér og saman gengum við þannig fyrir hornið á Reykjavíkurapóteki.

Þar sagðist Sæmi að hann myndi sleppa mér með einu skilyrði, því að ég lofaði að pissa aldrei framar inn um gluggann á Eymundsson. Ég lofaði og varð frjáls á ný. Ég hef staðið við loforðið sem ég gaf Sæma rokk, heimsins bestu löggu. Sá kunni að afgreiða málin.