- Advertisement -

„Ég hef aldrei verið velkomin í ráðhúsið“

Enn er mikil harka á milli meirihlutans í borgarstjórn annars vegar Vigdísar Hauksdóttur hins vegar. Harðorðar bókanir ganga á víxl.

Hér á eftir fara bókanirnar óstyttar:

…er ekki starfi sínu vaxin.

Vigdís: „Það sætir furðu að formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, skuli hleypa skrifstofustjóra borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, Helgu Björgu Ragnarsdóttur inn á fund borgarráðs í dag, einkum og sér í lagi í ljósi þess, að eineltisteymi ráðhússins hefur látið mál sem Helga Björg hefur rekið gegn mér í tæp tvö ár niður falla. Enn furðulegra er það í ljósi þess að siðanefnd Dómarafélag Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að Helga Björg Ragnarsdóttir hefur farið erindisleysu í öllum sínum málatilbúnaði þvert á það sem Helga Björg hélt fram í Facebook-færslu sinni um álit siðanefndar Dómarafélagsins. Formaður borgarráðs á að vinna fyrir alla kjörna fulltrúa og ber að sjá til þess að þeim líði vel í störfum sínum á fundum borgarráðs. Borgarráð ræður embættismenn og rekur samkvæmt skipuriti Reykjavíkur. Skrifstofustjóri Dags B. Eggertssonar hefur brotið á mér sem kjörnum fulltrúa með lygum, óheiðarleika og upplognum sökum. Það er krafa mín að hún haldi sig fjarri þeim fundum sem ég sit í ljósi niðurstöðu eineltisteymis ráðhússins. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs er ekki starfi sínu vaxin.“

…að grafa undan innviðum borgarinnar…

Meirihlutinn: „Hér snýr borgarfulltrúi Miðflokksins öllu málinu á haus eins og hennar er von og vísa. Hér skal fara rétt með: Þar sem Vigdís Hauksdóttir vildi ekki vinna að því að leiða málið til lykta og svara þeim erindum sem henni bárust var ekki hægt að aðhafast í málinu og því það látið niður falla. Það að mál sé látið niður falla vegna þess að Vigdís Hauksdóttir var ósamvinnuþýð er af og frá fullnaðarsigur hennar heldur merki um kjarkleysi hennar að horfast í augu við eineltistilburði sína og láta af slíkri niðurrifs- og ofbeldishegðun. Það er ekki sæmandi borgarfulltrúa sem er í valdastöðu að ráðast ítrekað að einni manneskju sem er eingöngu að sinna starfsskyldum sínum og sem hefur ekki sama aðgang að opinberri umræðu og borgarfulltrúinn. Árásir borgarfulltrúans á starfsfólk borgarinnar og áður ríkisins þegar hún gegndi stöðu þingmanns eru henni nú, sem fyrr – til skammar. Virðist eina fyriráætlun borgarfulltrúans vera að grafa undan innviðum borgarinnar sem gengur með öllu gegn hagsmunum borgarbúa.“

Enda hef ég komið upp um mörg spillingarmálin.

Vigdís: „Þegar kjörinn fulltrúi er sakaður um einelti eftir tvo fundi – svo mikið einelti að viðkomandi hafi hlotið heilsutjón af – þá sit ég ekki þegjandi yfir þeim ósannindum og lygum sem eru til þess fallin að rýra trúverðugleika minn sem stjórnmálamanns. Ef einhver fótur væri fyrir einelti af minni hálfu á hendur skrifstofustjóra Dags B. Eggertssonar, þá segja eineltisfræðin að viðkomandi ætti að forðast mig en ekki sækja í að sitja fundi þar sem ég er. Auðvitað lét ég ekki þvæla mér inn í heimatilbúinn, ólöglegan rannsóknarrétt ráðhússins sem stofnaður var mér til höfuðs. Nú gengur meirihlutinn fram með bókun sem inniheldur meiðyrði og miklar ásakanir í minn garð. Nokkrir fyrrverandi borgarfulltrúar hafa stigið fram og lýst svæsnu ráðhússeinelti sem þeir hafa orðið fyrir í störfum sínum. Það eitraða eineltis andrúmsloft er svo sannarlega til staðar í ráðhúsinu og gengur mann fram af manni í tvíendurreistum meirihluta Dags B. Eggertssonar. Ótrúlegt hvað nýjir borgarfulltrúar í meirihlutanum eru fljótir að læra eineltis vinnubrögðin. Bjarta hliðin á þessu máli er samt sú staðreynd að ég hef aldrei verið velkomin í ráðhúsið – það segir mér að ég er að gera rétta hluti sem kjörinn fulltrúi, enda hef ég komið upp um mörg spillingarmálin.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: