Ég get ekki þakkað stjórnvöldum
Stjórnvöld yppa öxlum og eiga engin rök.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, skrifar:
Hefð er fyrir því að þakka fyrir veturinn og óska gleðilegs sumars. Ég velti fyrir mér hvað beri að þakka og hvers ég óski af sumrinu. Ég get ekki þakkað veturinn sem stjórnvöld leiddu yfir öryrkja, ég get ekki þakkað stjórnvöldum fyrir aðgerðir til að draga úr skerðingum né það að hafa hækkað örorkulífeyrir. Í stjórnartíð þessara þriggja flokka gerist það að örorkulífeyrisþegar eru algjörlega hafðir utan hjá. Atvinnuleysisbætur voru hækkaðar fyrir ári síðan, örorkulífeyrir fylgdi ekki með. Stjórnvöld yppa öxlum og eiga engin rök, engin haldbær svör um hvers vegna örorkulífeyri sé haldið langt undir atvinnuleysisbótum og langt undir lágmarkslaunum. Búsetuskert fólk fær enn ekki rétt greitt út, skerðingar koma enn í veg fyrir að öryrkjar hafi hag af að fara á vinnumarkað og meira að segja getur það verið svo að það sé betra fyrir einstakling að hafa engan rétt á lífeyrir heldur en að eiga rétt þar sem greiðslur úr lífeyrissjóði skerða örorkulífeyri og húsnæðisstuðning.
Ég er nú þannig gerð að ég trúi að fólk geri sitt besta, ég hef hins vegar nú frekar litla trú á því að það sé raunin hjá ríkjandi stjórn og spyr er hún að gera sitt besta? Hún er enn að næra fátækt og ég hef ekki séð að skattalækkun á lægstu tekjur verði. Engu að síður og þrátt fyrir ríkisstjórnina sem ekkert hefur gert til að bæta hag þeirra sem verst standa í samfélaginu, óska ég öllum gleðilegs sumars og þakka veturinn, – Við ríkisstjórnina segi ég „vont var þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti“ Svo má sumarið koma fyrir mér 🙂 Minni svo allt mitt félagsfólk á að mæta í 1. maí göngu ÖBÍ næstkomandi miðvikudag