„Katrín, Bjarni og Sigurður, skammist til að standa við gefin loforð og afnemið strax krónu-á-móti-krónu-skerðinguna. Það væri a.m.k. góð byrjun, eða segið af ykkur ella. Þetta gengur einfaldlega ekki lengur.“
Sigurlaug Guðrún I. Gísladóttir skrifar hreint ótrúlega grein sem birt er í Mogganum í dag. Greinin lýsir mjög vel hversu ömurlega er komið fram við þá sem höllustum fæti standa. Sigurlaug segist vera reið, eðlileg er hún reið. Þau sem lesa greinina verða líka reið. Það sem Sigurlaug segir okkur má ekki vera. Greinin er endurbirt hér, ekki er ástæða til og ekki hægt að stytta skrif Sigurlaugar.
„Ég er reið, alveg svaðalega reið, en sem betur fer gríp ég bara til „pennans“ en ekki hnefans. Fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnir Íslands eru orsök þessarar uppsöfnuðu reiði og ef ekki eitthvað stórkostlegt gerist snemma á þessu ári mun svo sannarlega gjósa. Ég viðurkenni að þessi uppsafnaða reiði beinist líka að hagsmunasamtökum öryrkja sem enn halda úti samræðum við stjórnvöld en láta teyma sig á asnaeyrunum. Reiðin beinist líka að þeim sem skrifa pistla eins og kona með þrjár háskólagráður skrifaði fyrir nokkru, en hún gaf í skyn að betra væri bara að fara á örorku og fá íbúð hjá ÖBÍ en að standa í harkinu sem fylgir hinum íslenska leigumarkaði. Við þann lestur sauð upp úr hjá mér. Að einstaklingur með þrjár háskólagráður skuli vera svo fáfróður sýnir best hvað þessi þjóðfélagshópur, sem hvað verst stendur, glímir við, því sá sem veit það skrifar hvorki né segir svona.
Hvað veit ég um þessi mál?
Ég á fjögur börn, þar af þrjá stráka sem allir eru fæddir lögblindir og tilheyra því þeim hópi sem kallast öryrkjar. Þeir eru dæmdir til ævilangrar fátæktar og eru í raun allar bjargir bannaðar.
Fötlun þeirra fylgir ýmis aukakostnaður sem við hin þurfum ekki að greiða og ekki minnkar hann við að búa úti á landi og hafa ekki aðgang að eðlilegri ferðaþjónustu nema standa í sífelldu betli til sveitarfélagsins um að greiða ákveðið margar ferðir á mánuði. Ekki nóg með það heldur þurfa þeir að skila inn skýrslu um hvert á að ferðast. Hver myndi sætta sig við það? Ekki þeir og því leggja þeir mikið á sig til að vera óháðir og lifa sínu lífi án þess að hópur fólks sé með nefið ofan í þeirra málum. Þeir stunda líka vinnu en þeir fá ekkert fyrir hana þar sem stjórnvöld taka nánast hverja krónu til baka vegna reglunnar um krónu-á -móti-krónu-skerðingu. Hver sættir sig við launalausa vinnu?
Eiga ekki sama rétt og aðrir
Þeim er líka gert að greiða í lífeyrissjóð en eiga þó ekki sama rétt úr þeim og aðrir. Af hverju? Jú, ef þú slasast á starfsævi þinni og verður að hætta að vinna færðu ekki bara örorku frá Tryggingastofnun heldur einnig úr lífeyrissjóði þínum. Greiðslurnar úr þeim sjóði miðast við að bæta þér upp það tekjutap sem þú verður fyrir vegna slyssins. En strákarnir mínir fá ekki krónu úr sínum sjóði því reglurnar eru þannig að þú færð greitt úr sjóðnum miðað við þær tekjur sem þú hafðir áður en þú ferð á örorku. Þar sem þeir eru fæddir svona er vitaskuld ekki um neinar tekjur að ræða fyrir örorku. Það þýðir að þeir öðlast aldrei sama rétt til greiðslna og aðrir en þurfa samt að greiða í sjóðinn af öllum sínum launum. Þykir þetta í lagi?
En er yfirhöfuð eitthvert öryggi í því að greiða í lífeyrissjóð? Nei, ekki hvað örorku varðar. Því skyldi enginn halda að hann sé „tryggður“ ef hann slasast eða veikist.
Ég á nefnilega líka eiginmann sem hefur þrælað og stritað alla sína ævi. Hann varð fyrir því að slasast í vinnunni og fékk svo krabbamein í ofanálag. Við héldum að þar sem hann hafði alltaf greitt í lífeyrissjóð þá myndi þetta allt sleppa fjárhagslega (þið munið regluna um að lífeyrissjóðir bæti þér upp tekjutapið). Þegar ljóst var að hann færi ekki aftur á vinnumarkaðinn var sótt um í lífeyrissjóði afturvirkt um eitt ár. Urðum við mjög glöð þegar þar skilaði sér um 1,1 milljón kr. fyrir eitt ár, takk kærlega.
Næsta ár brá okkur heldur betur í brún því Tryggingastofnun krafði bóndann um rúmar 900.000 kr. vegna ofgreiðslu örorkubóta. Það var vegna þess að hann hafði svo miklar tekjur, þ.e. þessar 1.100.000 kr. úr lífeyrissjóðnum. Þó voru það bara greiðslur sem voru, eins og lög gera ráð fyrir, til að bæta upp það tekjutap sem hann hafði orðið fyrir vegna slyss og veikinda. En þetta tók Tryggingastofnun nánast allt aftur til sín. Hin svokallaða eign í lífeyrissjóði skilaði því í raun engu nema sárindum og reiði og gríðarlegu álagi á fjölskylduna. Undrast nokkur að ég sé reið?
Starfsgetumatið margumtalaða gerir reiðina enn meiri, því matið er svo vitlaust að hver sem hefur „fulla fimm“ ætti að sjá það. En innan stjórnsýslu og þingsins virðast fáir hafa allar fimmurnar, miðað við verkin þeirra.
Það er alveg kristaltært að hver sá sem mælir með þessu mati hefur ekki glóruhugmynd um líf öryrkja og hvorki hæfileika né vilja til að setja sig inn í þær aðstæður. Þeim sem mæla með þessu mati býð ég að hitta mig og ræða við mig og mína augliti til auglits því það væri allt of langt mál að rökstyðja það hér í litum greinarstúf. Ég er hins vegar viss um að ekkert ykkar hefur í raun áhuga á að vita meira, því þetta snýst jú allt um peninga hvað ykkur varðar. Og ekki reyna að segja mér að þeir peningar séu ekki til.
Það er líka með ólíkindum, eins og ég hef áður sett í slíka grein, að fólk með fulla starfsgetu skuli ekki sjá sóma sinn í að styðja kröfur öryrkja heldur láta eins og því komi þetta ekki við. Hvað gerist ef fólk missir heilsuna? Er það til í að hafa þær tekjur sem hér að ofan greinir?
Er eitthvert ljós fram undan? Lítið, en þó… Ljósið þessa dagana er að verkalýðsfélögin eru aðeins farin að taka undir með þessum hópi einstaklinga sem verst stendur. Röddin þaðan mætti þó vera sterkari og hefði löngu átt að vera orðin mun háværari.
Katrín, Bjarni og Sigurður, skammist til að standa við gefin loforð og afnemið strax krónu-á-móti-krónu-skerðinguna. Það væri a.m.k. góð byrjun, eða segið af ykkur ella. Þetta gengur einfaldlega ekki lengur.“