- Advertisement -

Ég er glöð og þær eru glaðar

Ég skil að mennirnir með mörgu milljónirnar skilji tilfinningar okkar ekki.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar:

Ég sé að framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins er eitthvað að gagnrýna gleði mína yfir því að á morgun muni þernur á hótelum, einn lægst launaðasti hópur í íslensku samfélagi, leggja niður störf, eftir að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu þar sem að 89% þeirra sem tóku þátt sögðu já við verkfalli. 

Ég ætla að leyfa mér að segja að mér finnst bara ekkert við hæfi að gagnrýna gleði mína. Hún er mjög sönn og er afleiðing af ýmsu, td. þessu: 
Þær konur sem ég hef hitt og talað við sem eru sannarlega láglaunakonur í íslensku samfélagi eru mjög glaðar! Þær voru glaðar yfir því að fá tækifæri til að greiða atkvæði og þær eru glaðar yfir því að fá tækifæri til að leggja niður störf. 

Þú gætir haft áhuga á þessum


Ég er glöð af því að ég starfaði í tíu ár sem láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði. Ég veit nákvæmlega hvernig það er að fá ömurleg laun fyrir mikla og erfiða vinnu og ég veit að ég hefði orðið glöð yfir því að fá tækifæri til að leggja niður störf til að sýna öllum sem notuðu vinnuaflið mitt til að láta hlutina ganga upp að hlutirnir myndu ekki ganga upp ef að ég legði niður störf. Til þess að knýja á um að ég þyrfti ekki lengur að sætta mig við að vera á eilífu útsöluverði!


Ég er glöð af því að loksins fá raddir láglaunakvenna í íslensku samfélagi að heyrast hátt og skýrt. Þrátt fyrir að Ísland mælist hæst á listum um kynja-jafnrétti er staðreyndin sú að láglaunakonan hefur ekki fengið neitt pláss eða nein völd. Að okkur hafi tekist að troða okkur í sviðsljósið, að við skulum allt í einu vera orðnar „hættulegar“ er sögulegt; eignalausar, valdalausar, peningalausar konur eru allt í einu orðnar afl í íslensku samfélagi, afl sem mögulega þarf að taka tillit til og hlusta á! Er ekki við hæfi að gleðjast yfir því?

Ég skil að mennirnir með mörgu milljónirnar skilji tilfinningar okkar ekki. Þeir vita ekki hvernig það er að fá aldrei nóg útborgað þrátt fyrir að hafa unnið heilan mánuð, að fá aldrei nóg útborgað mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, frá unga aldri fram á gamals aldur. Þeir vita ekkert hvernig tilfinningar vakna við það. 


En vegna þess að þeir hafa aldrei verið í þeirri stöðu þá hafna ég bara alfarið mati þeirra á því hvað er við hæfi tilfinningalega séð og hvað er ekki við hæfi.


Ég er hér, ég er glöð, get used to it.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: