Sólveig Anna skrifar: Verklýðsráð Samfylkingarinnar hélt í gær fund. Annar liður á dagskrá var umræða um „Afhverju hefur verkafólk yfirgefið Samfylkinguna?“. Nú veit ég ekki að hvaða niðurstöðu fundargestir komust. En í gær, sama dag og fundur Verkaýðsráðsins var haldinn, birtist grein eftir nokkra „leiðtoga“ hreyfingar vinnandi fólks, á Vísi. „Við höfnum gerræði og hótunum innan ASÍ“ heitir greinin; innihaldið er annars vegar upptalning á glæpum mínum (ég er m.a. kölluð gerandi) en mesta púðrið fer í að ata Ragnar Þór formann VR, auri í auðvirðilegri tilraun til að ráðast að mannorði hans með sömu deleringunum og röflinu sem að þau hafa ástundað undanfarin misseri, því sem næst öllum (nema þeim sjálfum og fámennum hópi einfeldninga og sýkófanta) til því sem næst óbærilega mikils ama. Á meðal þeirra sem að undirrita greinina eru Ólöf Helga Adolfsdóttir, nánasta samverkakona Agnieszku Ewu en þær brutust saman inn í tölvupósthólf mitt, eins og fjallað var um í Kjarnanum í gær, Halldóra Sveinsdóttir, formaður stéttarfélagsins Bárunnar, og Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Í gær, sama dag og fundur Verkaýðsráðsins var haldinn, birti Facebook-síða ráðsins hlekk á grein Ólafar Helgu og co., með hvatningu um að lesa greinina; „Athyglisverð grein um stöðuna í ASÍ“. Þess ber að geta að í Verkalýðsráði Samfylkingarinnar sitja fyrrnefnd Halldóra Sveinsdóttir, fyrrnefndur Finnbogi Sveinbjörnsson ásamt fyrrnefndri Agnieszku Ewu.
Mig langar, vegna þess að ég er andstyggileg kvensnift og alræmd frekja, að blanda mér í flokks-vangaveltur Samfylkingarinnar, þrátt fyrir að ég sé ekki í flokknum og hafi aldrei verið, og stinga upp á þessu sem í það minnsta hluta af svarinu við hinni áleitnu spurningu sem varpað var fram á fundi Verkalýðsráðsins, „Afhverju hefur verkafólk yfirgefið Samfylkinguna?“:
Ég held að verkafólk hafi losað sig úr faðmlagi Samfylkingarinnar og leitað að öðrum verndurum í hörðum heimi arðráns og almennra andstyggilegheita í garð vinnuaflsins m.a. vegna þess að Samfylkingin velur sér verkalýðs-leiðtoga úr hópi þeirra sem að eiginlega ekkert verkafólk veit hver eru, fólks sem að tekur aldrei til máls á opinberum vettvangi nema til að ráðast með lygum og svívirðingum að þeim verkalýðsleiðtogum, eins og Ragnari Þór, sem hafa eitt síðustu árum í að berjast gegn spillingu, gegn sjálftöku yfirstéttarinnar, og fyrir réttlæti og jöfnuði í samfélagi okkar.
Læknir, læknaðu sjálfan þig; Verkalýðsráð, ráðleggðu sjálfu þér; á meðan að Halldóra, Finnbogi og Agnieszka Ewa eru forysta verkafólks í Samfylkingunni held ég að mjög mörg okkar sem að tilheyrum stétt verkafólks treystum okkur til að fullyrða: Vekafólk mun halda áfram að yfirgefa ykkur og sennilega af endurnýjuðum þrótti, nú þegar að þið hafið ákveðið að taka ykkur stöðu með rógberum og glæponum, og gegn fólki eins og Ragnari Þór, vinsælum og farsælum leiðtoga sem hefur sýnt og sannað að hann getur náð raunverulegum árangri í raunverulegri baráttu.
Þegar ég var lítil sagði mamma mín mér oft söguna af stelpunni sem pissaði í buxurnar og sagði svo þegar hún var spurð afhverju hún væri svona blaut: „Ég dast í poll.“ Þegar ég sá færslu Verkalýðsráðs Samfylkingarinnar um hinn existensíalíska fund „Afhverju elskar okkur enginn?“ og svo færsluna um grein hinna miklu verkalýðs-leiðtoga og meðlima ráðsins varð mér hugsað til stelpunnar í sögunni hennar mömmu, sem að hlaut sjálf að vita að hún hafði pissað í buxurnar en kaus samt að horfa framan í heiminn og segja, meðan að pissu-lyktin varð meiri og meiri og öll vissu að lyktin var af henni: „Ég dast í poll“.
Komenntakerfi opið hér að neðan.