- Advertisement -

„Ég er á sextugsaldri, á ekki neitt, kem aldrei til með að eignast neitt“

„…missti húsið mitt, bílinn minn, kennitöluna mína og möguleikann á að klára námið…“

Alþingi „Árið 2012 hóf ég háskólanám, þá tæplega fertug, nýlega fráskilin og stóð ein uppi með börnin mín þrjú. Mig hafði lengi dreymt um að mennta mig en fljótlega eftir að ég hóf það nám byrjuðu mínir fjárhagserfiðleikar. Fljótlega eftir að námið hófst fékk ég fyrstu stefnuna frá LÍN um að námslán fyrrverandi eiginmanns míns væru fallin á mig,“ Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, á Alþingi í vor. Hún er einnig formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

„Stuttu seinna kom svo önnur stefna vegna láns frá bankanum. Sá fyrrverandi sumsé stakk af frá námsláni og bankaláni sem ég var í ábyrgð fyrir, samtals 11 milljónum sem voru uppreiknaðar í eitthvað enn meira vegna vanskila og innheimtukostnaðar. Ég reyndi að standa í þessu basli í einhvern tíma en með þrjú börn og í viðbót við þessar skuldir og nýtekið námslán sem ég tók sjálf gafst ég upp tæpum fjórum árum síðar, missti húsið mitt, bílinn minn, kennitöluna mína og möguleikann á að klára námið mitt en þá átti ég bara eftir ritgerðina,“ sagði Ásthildur Lóa, en hún var að lesa raunasögu konu sem er illa stödd og á sér fáa möguleika. Helst vegna framgöngu LÍN.

„Minn fyrrverandi hafði farið fyrst í greiðsluaðlögun og svo í gjaldþrot með aðstoð umboðsmanns skuldara sem greiddi fyrir hann skiptakostnaðinn. Ég reyndi þá leið en var synjað um aðstoð þar sem ég hafði ekki sótt um vægari úrræði fyrst. Ég sótti því um vægari úrræði en fékk aftur synjun á þeim forsendum að skuldirnar væru það miklar að ég gæti aldrei staðið undir þeim. Ég var því föst. Á næstu árum tókst mér að finna mér vinnu og skrapa saman þeirri upphæð sem þurfti til að geta óskað sjálf eftir gjaldþroti. Það voru skref sem voru ótrúlega þung að taka. En loksins þegar það tókst þá var nýbúið að breyta lögum Menntasjóðs um fyrningarfrest svo ég er strand. Menntasjóður sendir mér reglulega stefnu og viðheldur kröfunni og ég sé aldrei fram á að losna úr þessu. Ég er á sextugsaldri, á ekki neitt, kem aldrei til með að eignast neitt og sé bara ekki fram úr þessu og þess vegna er ég að velta fyrir mér þessu ákvæði um endurskoðun á þessum lögum.“

Ásthildur fór með aðra raunasögu, nokkru styttri:

„Afsakaðu ef ég er að trufla.“

„Mig langar að spyrja þig ef þú veist hvort einhverjum hafi tekist að semja við LÍN. Mér er búið að takast að hreinsa mig af flestu en eftir hanga námslánin. Nokkrar milljónir. Maðurinn minn er ábyrgðarmaður. Á meðan það er svoleiðis er ógjörningur fyrir okkur að eiga neitt, hvorki bíl né íbúð sem við ættum í raun alveg að geta keypt. Ég veit bara ekki hvort það sé hægt að semja. Þetta er auðvitað hjá lögfræðistofu, ég einhvern veginn þori ekki að fara í þetta einu sinni og heyri bara að LÍN semji ekki. Afsakaðu ef ég er að trufla þig.“

Þetta er úr ræðu sem Ásthildur Lóa flutti á Alþingi 16. apríl í vor.

Þá var verið að ræða um menntasjóð námsmanna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: