Stjórnmál

„Ég er á móti byltingum“

By Miðjan

March 02, 2021

Þess vegna var svo margt í upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs á sínum tíma sem mér féll illa.

„Ég er á móti byltingum. Það kemur ekki á óvart, ég er formaður Framsóknarflokksins. Við viljum hægfara breytingar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðu um stjórnarskrárfrumvörp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Stundum þurfa þær að vera róttækar til að ná umbótunum fram en við erum á móti byltingum. Við erum á móti tilraunastarfsemi þegar kemur að stjórnarskrá. Þess vegna var svo margt í upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs á sínum tíma sem mér féll illa. Á einum stað sagði að fyrirmyndin að því fullkomna stjórnkerfi sem við vildum hafa væri Norðurlöndin. Svo ætluðu menn að smíða bara eitthvað allt annað, eitthvert séríslenskt fyrirbrigði sem mönnum datt í hug, gera tilraun til þess. Ég var á móti því,“ sagði Sigurður Ingi.

„Sem betur fer var ýmislegt af því lagfært í gegnum vinnu þingsins á sínum tíma en það var byggt á grunni tilraunastarfsemi sem hafði ekki neitt sem ég held að sé nauðsynlegt varðandi stjórnarskrána. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að verklagið sem hæstvirtur forsætisráðherra hefur viðhaft á þessu kjörtímabili, að skilgreina ákveðna hluti sem við ætlum að fara í gegnum, jafnvel þó að við höfum ekki náð því öllu — í mínum huga gerir ekkert til að það náist ekki á tveimur kjörtímabilum. Það má alveg taka þrjú kjörtímabil, bara ef við náum að axla þá ábyrgð að fjalla um það málefnalega hér í þingsal.“