Ég 16 ára og kosningar
Þegar ég var sextán ára hefði ég feginn tekið þátt í kosningum. Ekki síður þegar ég var sautján, átján svo ekki sé talað um nítján ára.
Sextán ára vissi ég hvað ég vildi. Þá las ég alla dag ljóð Steins Steinarrs. Þetta ljóð hafði mikil áhrif á mig og ég las það oft, mjög oft.
Eldsvoði
Það kviknaði eldur á efstu hæð,
í einu húsi við Laugaveginn.
Og því verður ekki með orðum lýst,
hvað allur sá lýður varð harmi sleginn.
Það tókst þó að slökkva þann slóttuga fant,
því slökkviliðið var öðru megin.
Og því verður ekki með orðum lýst,
hvað allur sá lýður varð glaður og feginn.
En seinna um daginn, á sömu hæð,
í sama húsi við Laugaveginn,
þá kviknaði eldur í einni sál,
í einni sál, sem var glöð og fegin.
Og enginn bjargar og enginn veit,
og enginn maður er harmi sleginn,
þó brenni eldur með ógn og kvöl
í einu hjarta við Laugaveginn.
Sautján ára mætti ég á fyrstu vetrarvertíðina og var á sjó meira og minna næstu árin. Ég borgaði glás í skatta og var sannfærður um hvernig samfélagi ég vildi helst tilheyra. Enginn mótaði mig meir en Steinn Steinarr.
Þegar ég var ekki á sjó vann ég á eyrinni. Kynntist þar mönnum sem höfðu stritað þar í áratugi. Sumir áttu ekkert veraldlegt. En voru eigi að síður stórbrotnir menn.
Einn þeirra hét Guðmundur Jónsson og var af Ströndum, ekki frá Patreksfirði. Honum til heiðurs birti ég annað ljóð eftir Stein:
Dánarfregn
Í gærkveldi andaðist Guðmundur Jónsson,
gamall maður frá Patreksfirði.
Og það koma upp úr dúrnum, að eignir hans eru
ekki svo mikið sem fimm aura virði.
Það gerði nú ef til vill ekki svo mikið,
fyrst engum til byrði í lífinu varð hann,
og slíkt mætti jafnvel þeim burtgegna bróður
til betrunar telja. – En hver á að jarða´ ´ann?