- Advertisement -

Eftirlitið er bara upp á punt

Stjórnvöld hafa ekkert lært af hruninu.  Það hentar heldur ekki peningaöflunum í landinu.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Íslenskt hagkerfi er án eftirlits. Stjórnkerfið líka. Það gleymdist að gera ráð fyrir virkum eftirlitsstofnunum þegar íslenskt stjórnkerfi var hannað. Þetta var mér kennt í Háskóla Íslands, haustið 1978, í kúrs hjá Ólafi Ragnari Grímssyni sem þá var prófessor í stjórnmálafræði. Ég ætlaði ekki að trúa þessu en ég minnist þessara orða nánast á hverjum einasta degi þar sem hver skandallinn rekur annan einmitt vegna þess að eftirlit með gjörningum stjórnsýslunnar, peningakerfisins, fjármálaelítunnar og þeirra sem höndla með sjóði almennings er svo ábótavant að það er hneyksli.

Þú gætir haft áhuga á þessum


Milljónir verða milljarðar. Og almenningur borgar.

Hugsið ykkur, það þurfti að minna fjármálaeftirlitið á að skoða þá ótrúlegu fjármálagjörninga sem áttu sér stað hjá fyrirtækinu GAMMA þegar meira en 4 milljarðar voru bara horfnir út um gluggann á nánast einni nóttu. Svo virðist sem fyrrverandi starfsmenn hafi gengið út eins og fínir menn með ofurbónusa og skilið fyrirtækið eftir í rúst. Þarna brunnu upp peningar almennings í gegnum ýmsa sjóði. Og þetta er bara nýjasta dæmið. Þau eru endalaus. Það sama gildir um stjórnsýsluna. Framkvæmdir eru eftirlitslausar. Allt fer úr böndunum og kostnaður ríkur upp úr öllu valdi. Milljónir verða milljarðar. Og almenningur borgar.

Þetta kom svo vel í ljós í hruninu. Eftirlitsstofnanir voru svo máttlausar að það var grátbroslegt. Þær voru bara upp á punt. Algjörlega valdalausar. Starfsfólkið vissi ekki hvort það var að koma eða fara. Fjármálaeftirlitið var mjög skýrt dæmi. Og það er enn þá svona. Eftirlitsstofnanir eru valdalaus batterí og eru látnar vera það.

Fiskistofa er gott dæmi. Hún á að hafa eftirlit með fiskveiðum, vinnslu, afla um borð, aflaheimildastöðu skipa, vigtun og skráningu afla, umgengni um auðlindina og verndun. Fiskistofu er hins vegar ekki gert fært að sinna þessu og stjórnendur kvarta yfir valdaleysi þegar kemur að þessum verkefnum.


…er það algjör hneisa að skattrannsóknarstjóri þurfi leyfi hjá fjármálaráðherra til að kaupa svona gögn…

Þannig hafa kvótakóngar komist upp með að henda fiskinum, svindla á vigtinni og hafa aðra hentisemi í umgegni við auðlindina. “Að mati ríkisendurskoðanda styður eftirlit Fiskistofu með vigtun, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda ekki með viðunandi hætti við markmið laga um stjórn fiskveiða og laga um umgegni um nytjastofna sjávar. Eftirlitið sé í eðli sínu erfitt í framkvæmd og snúi að starfsemi þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Ríkisendurskoðandi bendir á að stjórnendur Fiskistofu telji að stofnunin sé og hafi verið undirmönnuð miðað við fjölda og umfang eftirlitsverkefna. Ómögulegt sé að sinna öllu því eftirliti sem henni ber að sinna, m.a. vegna skorts á úrræðum og viðurlögum.” Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem lögð var fyrir Alþingi í fyrra og var til umfjöllunar hjá stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd. Fiskistofa er hvorki með belti né axlabönd þegar hún stendur fram fyrir hagsmunum kvótagreifanna. Og svoleiðis vill útgerðaraðallinn hafa það. Stjórnvöld eru síðan strengjabrúða aðalsins.

Máttleysi íslenskra eftirlitsstofnana kom vel í ljós þegar kom að því að kaupa gögn sem vörðuðu aflandsfélög og skattaskjól í eigu Íslendinga og skattrannsóknarstjóri óskaði eftir að kaupa árið 2014. Í fyrsta lagi er það algjör hneisa að skattrannsóknarstjóri þurfi leyfi hjá fjármálaráðherra til að kaupa svona gögn og í öðru lagi að ráðherra, í þessu tilfelli Bjarni Benediktsson, komist upp með að draga þessi kaup endalaust og botnlaust og í þriðja lagi að hann hafi sloppið með að svara allskyns fyrirspurnum þingmanna og annarra um það sem fram kemur í gögnunum.

Þetta eru bara örfá dæmi. Staðan er mjög alvarleg. Á meðan vængirnir eru skornar af eftirlitsstofnunum og þær hafðar valdalitlar eða alveg valdalausar fá fjármagnseigendur og hagsmunaaðilar á öllum sviðum atvinnulífsins að leika lausum hala. Og hafa alla möguleika til að gera það sem þeim sýnist. Stjórnvöld hafa ekkert lært af hruninu. Það hentar heldur ekki peningaöflunum í landinu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: