„Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir vonbrigðum með þessi vinnubrögð samninganefndar Eflingar og telur þau ekki til þess fallin að greiða fyrir samningum aðila,“ segir á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga og að auki hefur Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambandsins, lýst yfir undrun á boðuðu verkfalli Eflingar.
„Vegna yfirlýsinga formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) í fjölmiðlum í dag vill Efling – stéttarfélag koma því á framfæri að Efling hefur átt tugi viðræðufunda í kjaradeilu við SÍS síðan í mars 2019, þar af sjö undir forræði Ríkissáttasemjara eftir að deilu var vísað þangað á síðasta ári,“ segir í svari Eflingar.
„Enginn skortur hefur verið á vilja Eflingar til að eiga viðræður við SÍS og enginn skortur á tækifærum fyrir SÍS að koma á framfæri viðbrögðum og hugmyndum um lausn deilunnar. Að mati Eflingar hefur samninganefnd SÍS tafið málið fram úr hófi. Efling telur þau vinnubrögð samninganefndar SÍS ekki hafa breyst á síðustu dögum eða vikum.
Yfirlýsing samninganefndar Eflingar frá því í gær um árangurslausar viðræður og tilkynning um verkfallsatkvæðagreiðslur útilokar ekki að SÍS geti kynnt samninganefnd Eflingar ný viðbrögð og tillögur, sé þeim til að dreifa, og fengið fram sátt um nýjan kjarasamning áður en til verkfalls kemur.
Boðað hefur verið til fundar í deilunni næstkomandi fimmtudag hjá Ríkissáttasemjara sem samninganefnd Eflingar mun mæta á.“