- Advertisement -

Efling kýs um verkfall hjá borginni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Í dag hefst verkfallskosning Eflingarfélaga sem að starfa hjá Reykjavíkurborg,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

ENGINN, EKKI BORGARSTJÓRI, EKKI SA, ENGINN GETUR HAFT ÞENNAN RÉTT AF FÓLKINU.

„Ríflega 1800 manneskjur eru á kjörskrá, að miklum meirihluta konur. Þetta er fólkið sem eru á lægstu launum á íslenskum vinnumarkaði. Vinna eftir töxtum, og hafa fæst aðgang að nokkurri aukavinnu. Nema að sækja hana annað, vera í tveimur og jafnvel þremur vinnum. Þetta fólk hefur samt allt sömu útgjöld og aðrir. Þetta er fólkið sem á kannski 20-30.000 krónur eftir um mánaðamót, sé það svo óheppið að vera á leigumarkaði. Þetta er fólkið sem að tók á sig niðurskurð eftir hrun, fólkið sem að hefur þurft að þola mönnunarvanda í góðærinu. Þetta eru konurnar sem að hafa unnið áratugum saman við að annast annað fólk en hafa aldrei uppskorið neitt, hvorki efnisleg gæði né þakklæti þeirra sem að stýra samfélagi okkar. Þetta er konurnar sem að hafa í leikskólunum sinnt ótrúlegum fjölda barna undir einstaklega miklu álagi, álagi sem að bara eykst og eykst. Þetta eru konurnar sem að sinna gömlu fólki, undir álagi sem að eykst og eykst; gerðu meira, hlauptu hraðar, hraðar. Þetta eru konurnar sem að mega ekki borða matinn sem að þær sjálfar hafa þó eldað, eiga frekar að henda honum í ruslið svo að borgin geti skrifað í einhverja skýrslu að hún stundi moltugerð,“ skrifar hún.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við erum stór og samstíga hópur.

„Þetta fólk hefur sjálfstætt samningsumboð. Þetta fólk hefur lýðræðislegan rétt í samfélaginu okkar að eiga í viðræðum við svokallaða launagreiðendur á nokkurra ára fresti, til að reyna að knýja á um betri kjör og aðstæður. Enginn, ekki borgarstjóri, ekki SA, enginn getur haft þennan rétt af fólkinu.

Samninganefnd Eflingar við Reykjavíkurborg er mönnuð fólkinu af hinum fjölbreyttu vinnustöðum borgarinnar. Við erum stór og samstíga hópur. Hver einasta ákvörðun okkar hefur verið tekin í lýðræðislegu ferli þar sem að við höfum vegið og metið hverja ákvörðun. Fólkið í samninganefndinni sem að ég hef verið svo heppin að fá að starfa með undanfarna marga mánuði tekur störf sín alvarlega. Við gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar gagnvart félögum okkar. Í meira en tíu mánuði höfum við reynt að ná eyrum samninganefndar borgarinnar og auðvitað borgarstjóra. Þau hafa ekki lagt við eyrun. Þau hafa lagt fram eitt tilboð, óásættanlegt, verra en hinn svokallaði lífskjarasamningur.

Við erum hér og við erum á leið í verkfall.


Því er staðan eins og hún er. Við, fólkið sem að hefur unnið árum og áratugum saman við að halda borginni gangandi, krefjumst virðingar og sanngirni. Er það of stór krafa? Mega láglaunakonur í borginni ekki sjást og heyrast? Eiga þær að halda áfram að sætta sig við hið óásættanlega?

Við viljum semja. En af skynsemi. Með sjálfsvirðinguna að vopni. Við bjóðum borgarstjóra að sýna okkur virðingu og vinskap og mæta okkur í opnu, lýðræðislegu ferli. Við vonum að hann taki boði okkar.

En nú er komið að því að kjósa um aðgerðir. Það er komið að því að beita máttugasta vopni vinnuaflsins. Það er kominn tími til að sýna samstöðu, hvort með öðru og með okkur sjálfum.

Borgin er í okkar höndum. Hún er líka í okkar hjörtum; við eigum heima í henni, hún er samfélagið okkar, við eigum hana nákvæmlega jafn mikið og allir aðrir. Við ætlum ekki lengur að vera ósýnileg í borginni okkar. Við erum hér og við erum á leið í verkfall.“

Miðjan: Nýjar fréttir daglega.

Stuðningsreikningur okkar er;

515 26 521009.

Krosseyri ehf. 521009-2920.




Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: