- Advertisement -

Efling hefur lögvarinn rétt til að gera sinn eigin kjarasamning

Sólveig Anna:

Félagsfólk Eflingar er ekki þegnar Samtaka atvinnulífsins þó að því miður virðist sumir menn telja að svo sé. Við erum íbúar í lýðræðissamfélagi, með lögvarinn rétt til að gera okkar eigin kjarasamning.

Í gær, sunnudag, samþykkti samninganefnd Eflingar einróma nýtt tilboð til SA. Um tilboðið má lesa í athugasemd við þessa færslu. Rikissáttasemjari hefur boðað fund kl. 11 á morgun en tilboð okkar rennur úr kl. 12 á hádegi. Ég hvet ykkur til að skoða tilboðið. Það er skynsamlegt og málefnalegt eins og annað sem kemur frá samninganefnd Eflingar.

Nei, það leggjast ýmsir á árarnar í því verkefni…

Snemma síðastliðið haust sagði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að samfélagið ætti að leggja út rauðan dregil fyrir aðflutt vinnuafl, en um það bil helmingur félagsfólks Eflingar er af erlendu bergi brotið. Nú segir framkvæmdastjórinn það „voveifleg tíðindi“ ef að samið yrði með öðrum hætti við Eflingu, lang stærsta félag verka og láglaunafólk á Íslandi, en við önnur félög innan SGS. Rauði dregilinn er semsagt samræmd láglaunastefna á öllu landinu, sem viðhaldið skal af forherðingu og á kostnað félagsfólks Eflingar. En framkvæmdastjórinn er ekki einn um að reyna að magna upp samfélagslega móðursýki vegna sanngjarns og málefnalegs tilboðs samninganefndar Eflingar. Nei, það leggjast ýmsir á árarnar í því verkefni að grafa undan sjálfstæðum samningsrétti Eflingar og möguleikum samninganefndar félagsins á að gera kjarasamning sem hentar félagsfólki. Til dæmis menn úr framvarðasveit SGS þar sem að Efling er langstærsta félagið (á kjörskrá hinna 18 félaganna innan SGS voru í kosningunum um kjarasamningana 23.711 einstaklingar, til samanburðar er samninganefnd Eflingar í kjaradeilu sem snýst um kjör 20.609 einstaklinga). Við erum m.a. sökuð um „gengdarlausar árásir“ á félög og forystu SGS ásamt ýmsu öðru. En ekkert er fjær sannleikanum; það sem við í Eflingu höfum gerst „sek“ um er málefnaleg og sjálfsögð gagnrýni á vinnubrögðin í kringum kjarasamningagerð ASÍ-félaganna, gagnrýni á að þegar umsaminn hagvaxtarauki hafi verið tekinn inn í launaliðinn í nýjum kjarasamningi, að samið hafi verið um prósentuhækkanir en því logið í áróðursskyni að um væri að ræða framhald á Lífskjarasamningum þar sem að aðeins var samið um krónutöluhækkanir, og svo höfum við bent á og rökstutt ítarlega að kjarasamningur SGS við SA hentar Eflingar-fólki alls ekki. Málshátturinn góði um að sannleikanum verði hver sárreiðastur hlýtur að koma þeim sem lesa reiðilestur eins helsta formanns SGS-félaganna yfir forystu Eflingar á Vísi í dag til hugar (það er auðvitað gamall sannleikur um íslenska verkalýðshreyfingu og meðlimi hennar).

Þú gætir haft áhuga á þessum

Til að hjálpa mönnum aðeins við að nálgast raunveruleikann kem ég þessu hér með á framfæri: Félagsfólk Eflingar er ekki þegnar Samtaka atvinnulífsins þó að því miður virðist sumir menn telja að svo sé. Við erum íbúar í lýðræðissamfélagi, með lögvarinn rétt til að gera okkar eigin kjarasamning. Og félagsfólk Eflingar getur ekki, þrátt fyrir að það myndi henta ýmsum forystusauðum, samþykkt að vera bundið á klafa SGS og annara ASÍ félaga, þrátt fyrir að félagið fjármagni að stórum hluta rekstur beggja þessara fyrirbæra með geigvænlegum fjárútlátum á ári hverju, og það fylli menn kannski vissri tilætlunarsemi.

Félagsfólk Eflingar er vinnuafl höfuðborgarsvæðisins. Við knýjum hér áfram hjól atvinnulífsins og framleiðum með vinnu okkar hagvöxtinn. Við erum ómissandi fólk, frjálst fullorðið fólk og við höfnum því að fram sé komið við okkur sem þriðja flokks þegna í einhverju konungsríki eða lénsveldi. Menn ættu að fara að temja sér virðingu í samskiptum við okkur, og viðurkenningu á því að án okkar mun ansi margt hætta að ganga upp. Það er ekki of seint að gera það.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: