Greinar

Efling gagnrýnir vinnubrögð stjórnenda lífeyrissjóða vegna Init málsins

By Aðsendar greinar

May 28, 2021

Efling.is

Stjórn Eflingar gagnrýnir í ályktun ófullnægjandi vinnubrögð stjórnenda lífeyrissjóða í eftirmálum umfjöllunar Kveiks á RÚV um greiðslur þeirra til fyrirtækisins Init ehf. Stjórnendur sjóðanna leyna sjóðfélaga og stéttarfélög upplýsingum um samstarf sitt við Init og hafna því að undirgangast trúverðuga, óháða úttekt. Þess í stað hyggjast þeir kaupa sýndarrannsókn hjá endurskoðunarfyrirtæki.

Þann 27. apríl síðastliðinn, eftir umfjöllun Kveiks, sendi Sólveig Anna Jónsdóttir f.h. stjórnar Eflingar áskorun til stjórnar Gildis – lífeyrissjóðs þar sem hvatt var til óháðrar rannsóknar á samstarfi lífeyrissjóðanna við Init (frétt RÚV). Skömmu síðar eða 11. maí áttu Sólveig Anna og Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar fund með Árna Guðmundssyni framkvæmdastjóra Gildis þar sem þau ítrekuðu vilja Eflingar til samvinnu um heiðarlega og gagnsæja úttekt á því hvernig farið hefur verið með fé sjóðfélaga í viðskiptum við Init.

Þann 25. maí upplýsti Árni Guðmundsson loks Eflingu um að Reiknistofa lífeyrissjóðanna (RL) væri búin að semja við endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young um að framkvæma úttekt. Sú ákvörðun fullnægir ekki á nokkurn hátt þeirri eðlilegu kröfu að trúverðugur og óháður aðili vinni umrædda úttekt. Ernst & Young er hagnaðardrifið einkafyrirtæki sem hefur hag af því að framleiða niðurstöðu sem styggir ekki verkkaupa.

Athafnir lífeyrissjóðanna stangast algjörlega á við yfirlýsingar sem þeir hafa látið frá sér vegna Init-málsins. Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu – lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í Reiknistofu lífeyrissjóða sagði eftirfarandi í fréttatíma RÚV þann 30. apríl síðastliðinn: „Við munum veita … öllum þeim sem óska eftir gögnum allt það sem við höfum, teljum okkur ekki hafa neitt að fela og munum hvetja Init til að gera slíkt hið sama“. Nokkrum dögum síðar ítrekaði Viðar Þorsteinsson skriflega ósk við Ólaf um að fá afhentan samning RL við Init. Ólafur hafnaði því í tölvuskeyti þann 3. maí. Yfirlýsingar Ólafs í fjölmiðlum um gagnsæi og að „hafa ekki neitt að fela“ eru því markleysa og orðagjálfur eitt.

Tæpu ári fyrir umfjöllun Kveiks, í júní 2020, vakti Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar athygli Árna Guðmundssonar framkvæmdastjóra Gildis á grunsamlegum viðskiptaháttum Init. Viðar sendi Árna skriflega greinargerð um tilvist skúffufyrirtækis í eigu starfsmanna Init og um óútskýrðar fjármagnstilfærslur sem virtust hugsaðar til þess eins að fela arðgreiðslur. Efling fékk engar upplýsingar eða svör frá Gildi um aðgerðir í kjölfarið. Umfjöllun Kveiks á RÚV í apríl 2021 varpaði svo enn skýrara ljósari á þessa viðskiptahætti og sýndi m.a. fram á að um fleiri skúffufyrirtæki var að ræða.

Ljóst er að lífeyrissjóðirnir ætla sér að halda leyndarhjúpi yfir gögnum og upplýsingum tengt samstarfi sínu við Init og ætla að víkja sér undan heiðarlegri rannsókn.

Gildi er lífeyrissjóður Eflingarfélaga samkvæmt kjarasamningum félagsins. Félagið skipar meðlimi í fulltrúaráð sjóðsins, sem fer með atkvæðisrétt á aðalfundi hans. Efling ásamt öðrum notendum Jóakim-kerfisins greiðir til Init samkvæmt gjaldskrá sem lífeyrissjóðirnir, eigendur kerfisins, semja um við Init.