Myndir: Spessi.

Fréttir

Efling frestar verkfalli

By Ritstjórn

March 24, 2020

efling.is:

Samninganefnd Eflingar gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur frestað verkfallsaðgerðum frá og með morgundeginum, 25. mars 2020. Aðgerðirnar taka til allra félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfus. Samninganefndin lét um leið frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Covid-19 faraldurinn hefur leitt til mikillar óvissu á öllum sviðum samfélagsins, meðal annars í starfsemi stofnana þar sem okkar félagsmenn vinna. Í því ástandi teljum við skynsamlegast að fresta verkfallsaðgerðum þangað til faraldurinn er liðinn hjá. Við höfum átt samráð við okkar félagsmenn um þessa ákvörðun og tökum hana með stuðningi þeirra.

Við munum aldrei taka annað í mál en að félagar okkar hjá Kópavogi, Seltjarnesbæ og víðar fái kjarabætur sambærilegar þeim sem var í kjarasamningum Eflingar við ríkið og Reykjavíkurborg. Við erum tilbúin að hefja verkfallsaðgerðir af krafti á nýjan leik þegar faraldurinn hefur gengið yfir og það er eindregin stuðningur meðal félagsmanna okkar fyrir því. Þá höfum við móttekið afgerandi samstöðuyfirlýsingu frá félögum okkar hjá Reykjavíkurborg. Við erum því reiðubúin að mæta fílefld í verkfallsaðgerðir innan nokkurra vikna, mögulega í umfangsmeiri og beittari mynd en hingað til.

SÍS var tilkynnt bréfleiðis í dag um ákvörðun samninganefndarinnar. Er verkfalli aflýst frá og með kl 00:01 á morgun, miðvikudag 25. mars 2020, og félagsmönnum Eflingar hjá umræddum sveitarfélögum heimilað að ganga til reglubundinna starfa samkvæmt ráðningarsamningum frá þeim tíma.

„Félagsmenn okkar vinna flestir hverjir við grunnþjónustu og við umönnun og þeir skilja mjög vel hvað veirufaldurinn þýðir fyrir samfélagið. Þeir hafa sýnt mikla ábyrgð vegna faraldursins, til dæmis með því að veita rúmar verkfallsundanþágur,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

„Sveitarfélögin hafa hins vegar kosið að nýta sér faraldurinn á einstaklega ómerkilegan hátt til að hamla eðlilegum framgangi viðræðna. Skömm Sambands íslenskra sveitarfélaga er mikil. Ósvífni þeirra breytir því þó ekki að félagsmenn okkar hjá Kópavogi og hinum sveitarfélögunum munu fá sínar eðlilegu kjarabætur,“ sagði Sólveig Anna.