Efling ber höfuð og herðar yfir önnur félög hvað varðar hag innflytjenda
Hallfríður Þórarinsdóttir skrifaði:
Nú logar FB og fleiri fjölmiðlar vegna ummæla formanns Eflingar Sólveig Anna Jónsdóttir um að Efling hafi ekki hugsað sér að setja íslenskukennslu á vinnutíma inn í kjörur í kjaraviðræður sem framundan eru.
Mér heyrist á öllu í þessum umræðum að fólki yfirsjáist mergurinn málsins varðandi íslenskukennsluna. Hún á að sjálfsögðu að vera á ábyrgð pólitískra yfirvalda. Þau ættu að taka höndum saman við atvinnurekendur og sjá til þess að starfsfólk af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði fái kennslu í íslensku á vinnutíma. Stéttarfélögin hafa staðið í eldlínunni hvað varðar réttindabaráttu þessa fólks, en hvorki pólitísk yfirvöld eða atvinnurekendur. Ég hef stundað rannsóknir á innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði í þó nokkuð mörg ár og fullyrði að ef það eru einhver öfl í íslensku samfélagi sem hafa borið hag innflytjenda fyrir brjósti þá er það verkalýðshreyfingin og nota bene þar ber hin nýja og róttæka Efling höfuð og herðar yfir önnur félög, með fullri virðingu. Það er í raun skömm að því hvað leiðandi atvinnurekendur og pólitísk yfirvöld hafa í raun staðið í vegi fyrir framgangi og velferð þessa fólks sem hingað er komið til helga líf sitt framlagi til íslensks samfélags.
Hvar er gremjan útí aðgerðarleysi þessara aðila? Hvar er gremjan útí launaþjófnaðinn og annann ósóma sem allt of margir atvinnurekendur hafa stundað á innflytjendum? Afhverju er það sjálfgefið að stéttarfélögin eigi að heyja þessa baráttu um íslenskukennslu á vinnutíma ofan á allt annað?