Fyrir mörgum árum var ég, sem blaðamaður, á fundi þar sem fjallað var um aðgerðir verkalýðsfélaganna. Tillögur voru felldar með þar sem þær voru sagðar ólöglegar. Að því kom að í pontu fór einn félagsmanna. Sá barði í borðið og sagði stundarhátt: „Ef við gerum ekki gert það löglega, þá gerum við það bara ólöglega.“
Þetta rifjaðist upp við þessi skrif Guðmundar Gunnarssonar:
„Sumt af því sem sagt um lífeyrissjóðina gengur þvert á gildandi löggjöf um starfsemi lífeyrissjóðanna og skyldur stjórnarmanna þeirra. Reyndar virðast sumir þingmenn og núv. félagsmálaráðherra vaða nákvæmlega sömu villigötur og þekkja ekki þau lög sem Alþingi hefur sett um lífeyrissjóðina, t.d. þegar þeir tala um að verkalýðshreyfingin eigi lífeyrissjóðina og um leið fyrirtækin sem lífeyrissjóðirnir eigi hlutabréf í. Stjórnir verkalýðsfélaganna hafi hækkað laun forstjóra þessara fyrirtækja ótæpilega og því hafi alþingismenn þurft að hækka laun sín. (Hér er ég t.d. að vísa til endurtekinna ummæla núv. félagsmálaráðherra). Það eru um 20 lífeyrissjóðir í landinu, 7 þeirra falla undir starfssvið aðildarfélaga ASÍ og þau kjósa með einum eða öðrum hætti helming stjórnarmanna í þessa 7 sjóði. Samtök vinnuveitenda á viðkomandi starfssviði tilnefna hinn helming stjórnarmanna. Í gildandi lögum segir að verkefni stjórna lífeyrissjóða sé að ávaxta skyldusparnað sjóðfélaga og greiða út lífeyri. Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum er síðan gert fylgjast grant með því að stjórnir lífeyrissjóðanna fara ekki út fyrir þetta starfssvið.
Í Kveik kom einnig fram mikið þekkingarleysi á framkvæmd verkfalla og ákvæðum vinnulöggjafarinnar um framkvæmd þeirra. Svokölluð Pálslög, þáv. félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs, sem sett voru 1995 skertu mikið möguleika á skæruverkföllum. Samninganefnd viðkomandi stéttarfélags getur ekki boðað til verkfalls nema að deilan sé kominn til ríkissáttasemjara og hann hafi gert árangurslausar sáttatilraunir. Ef þá er boðað til skæruverkfalla þurfa félagsmenn að hafa samþykkt í allsherjar atkvæðagreiðslu allra þeirra sem eru á viðkomandi kjarasamning. Samtök vinnuveitenda setja undantekningalítið verkbann á restina ef einungis eigi að boða einhverja útvalda. Þú pikkar ekki bara einhverja útvalda eins og t.d. bara þá starfsmenn sem setja olíu á flugvélarnar og stoppa þannig allt flug til og frá landinu.“