Náttúran verður afgangsstærð. Þjóðin horfir steinhissa á.
Ragnar Öndunarson berst af afli gegn þriðja orkupakkanum. Hann skrifaði seint í gærkvöld:
„Almennt séð er auðveldara að koma sér í vandræði en úr þeim. Bretar geta staðfest að „konungsgarður er rúmur inngöngu en þröngur brottfarar“. Ef ríkisstjórnin „valtar yfir“ okkur í O3 málinu, þá verður þrautarlendingin sú að berjast gegn aðildinni að EES. Við munum aldrei gefa fjárfestum Landsvirkjun, aldrei.
Okkur var aftur og aftur lofað því að ávinningur okkar af stóriðju og virkjunum mundi felast í skuldlausum virkjunum í framtíðinni og lágu orkuverði. Nú er þessi framtíð að ganga í garð. Þá er líka komið að efndunum. Lágt orkuverð er eini kostnaðarliðurinn sem er íbúum landsins í hag. Við gefum aldrei eftir, gefumst aldrei upp.“
Ragnar treystir ekki ríkisstjórninni til að fara rétt með orkupakkann. Snemma í morgun bætti hann við.
Ríkisstjórnin og flokksforysta Sjálfstæðisflokksins hugsa „statískt“ um O3 og telja óhætt að taka þetta eina skref. Andstæðingar O3 hugsa „dynamískt“ um málið, álíta þetta eina skref vera í átt að óásættanlegu fyrirkomulagi, uppskiptingu og einkavæðingu Landsvirkjunar. Fari stjórnvöld sínu fram og komi svo í ljós að fyrirvarinn haldi ekki, þá verður eina úrræðið að við segjum okkur úr EES.
Lágt orkuverð og grænasta orkan eru þeir einu þættir sem vega upp á móti því að nánast allt er dýrara hér en í öðrum löndum og hefur verið um ómunatíð. Að gera þessa liði að evrópskri markaðsvöru grefur undan sérstöðu okkar. Hafa má hliðsjón af laxeldinu: Erlendir fjárfestar með erlendan laxastofn skapa erlendu vinnuafli tekjur. Náttúran verður afgangsstærð. Þjóðin horfir steinhissa á.
Að efna til þjóðarsjóðs og fela einhverjum sjóðstjórum ávöxtun hans er ekki áhættulaust. Ásókn í „annarra manna fé“ og „fé án hirðis“ er alltaf mikil og vitað að sjóðir í ávöxtun græða stundum og stundum ekki. Við minnumst þess að sumir lífeyrissjóðir töpuðu 40% í hruninu, en sumir reyndar engu.
Okkur hefur statt og stöðugt verið lofað því síðustu 50 árin að afskrifaðar og skuldlausar virkjanir muni færa okkur og heimilum okkar ávinning í framtíðinni. Núna er þessi framtíð gengin í garð og komið að því að efna loforðin. Ekki láta sjóðstjóra spila fjárhættuspil með ávinninginn og ekki fórna honum í nafni evrópskrar samvinnu.