„Ég hefði óskað þess að hæstvirtur forsætisráðherra hefði verið skýrari í svörum…,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins á Allþingi í gær, eftir að hafa hlustað á svar Bjarna Benediktssonar við spurningu Sigurðar Inga. Hann minnti á að við fjárlagagerðina og samþykkt Alþingis „…á fjárlögum skömmu fyrir jól var samkomulag milli allra þingmanna, sem síðan gekk eftir, um að bæta fjármunum í heilbrigðiskerfið, samgöngur og fleiri slík verkefni. Það kom síðan í ljós að vegna vandamála við tölvuskráningu skilaði vilji fjárlaganefndar sér ekki inn í kerfið með réttum hætti og þegar við samþykktum fylgirit frá ríkisstjórninni var það því samþykkt með þeim fyrirvara að fylgt skyldi eftir niðurstöðu fjárlaganefndar er varðaði samgöngu- og hafnarmál.“
Svarið sem Sigurður Ingi hefði vilja hafa skýrara af hálfu forsætisráðherra er svona:
„Það er vissulega svo að í nýjum lögum um opinber fjármál er gert ráð fyrir því að fest séu í lög málefnasviðin og framlög til þeirra en að nánari sundurliðanir á málaflokka komi fram í fylgiriti. Slíkt fylgirit lá hér fyrir þinginu þegar fjárlög voru samþykkt. Þegar þingið tekur málið þannig til umfjöllunar er meginhugsunin samkvæmt lögunum sú að menn beini sjónum sínum að stóru myndinni. En eins og venja er til og við var að búast geta komið upp viðkvæm verkefni. Það gerðist einmitt í fjárlagavinnunni, þó að hún ætti sér stað við mjög sérstakar aðstæður undir lok síðasta árs, að menn lögðu áherslu á að ákveðin afmörkuð verkefni fengju framgang sem ekki var að sjá á fylgiritinu að hefðu fjármögnun. Þegar þannig háttar til og þingið bætir við fjármagni inn á málefnasviðin á uppfært fylgirit að bera þess merki hver þingviljinn var um þau tilteknu verkefni. Ég vænti þess að viðkomandi fagráðherrar lúti þingviljanum um slík mál. En þegar öllu er á botninn hvolft þarf engu að síður að vera ákveðið svigrúm í framkvæmd fjárlaga, eins og lögin bera með sér, til að fylla upp í götin og taka mið af aðstæðum sem stundum geta þróast frá því sem menn höfðu gefið sér undir lok fjárlagavinnunnar. Mér er ekki kunnugt nákvæmlega um þessi ákveðnu verkefni. En þessi ábending er gott tilefni til að fylgja því eftir að þingviljinn komi fram í framkvæmd. Það breytir ekki hinu að við getum vonandi haldið okkur við það að vera ávallt að skoða stóru myndina og vera með djúpa umræðu um hana í framtíðinni þegar fjárlög eru hér á dagskrá.“