Þorvaldur Gylfason skrifar:
Ef ég væri Alþingi myndi ég játa mig sigraðan og gefast upp. Auðmýkingin sem bíður þingsins í stjórnarskrármálinu verður því æðisgengnari sem þingið heldur lengur áfram að flækjast fyrir. Við bætist tvennt sem mun veikja viðnámsþrótt þingsins á næstu mánuðum.
1. Tap Trumps Bandaríkjaforseta í kosningunum eftir þrjár vikur og trúlegir fangelsisdómar yfir honum munu lækka rostann í Morgunblaðinu og öðrum fylgjendum hans, fasistans, í herbúðum ríkisstjórnarinnar. Þau munu spyrja sjálf sig: Gæti þetta gerzt hér? (Svarið er já.)
2. Rannsókn á meintum mútugreiðslum íslenzks útvegsfyrirtækis í útlöndum mun með líku lagi gerbreyta andrúmsloftinu og landslagi stjórnmálanna. Það hefur aldrei gerzt svo vitað sé að fyrirtæki sem hefur orðið uppvíst að því að múta erlendum stjórnmálamönnum hafi ekki einnig mútað innlendum stjórnmálamönnum.
Framganga Alþingis í stjórnarskrármálinu knýr á um að öllu verði lyft upp á borð. Eftir kosningar getur einfaldur þingmeirihluti t.d. ákveðið að opna bækurnar sem voru læstar niður eftir hrun o.m.fl.