EES er umgjörð evrópsks kapítalisma
„Sjálfsagt er unnt að halda þessari upptalningu áfram, en þetta er nóg til að minna okkur á að hér er öllu fórnað fyrir peninga. Við gætum hvorki náttúru landsins né menningar eins og við lofum sjálfum okkur á tyllidögum.“
Ragnar Önundarson skrifar: Aðildin að EES þarf að koma til endurmats. EES er umgjörð evrópsks kapítalisma. Hann gengur út á markaðsbúskap, með samkeppni, samningsfrelsi, frjálsu framtaki og frjálsum viðskiptum. Árangur manna er varinn af eignarrétti, sem telst til mannréttinda. Algjör grundvallarforsenda þessa efnahagsskipulags er að til staðar séu alvöru, virkir samkeppnismarkaðir. Ef ekki, verða skekkjur og ófullkomleiki markaða uppspretta auðtekins hagnaðar, sem þá safnast fljótt í hendur fárra. Falli þessi grundvallarforsenda verður spurt hvort með sanngirni geti slík auðokun og auðsöfnun notið verndar eignarréttarins.
Allir vita hvernig samkeppnisyfirvöldum okkar hefur mistekist. Þau samþykkja í sífellu samruna og yfirtökur, sem hefur leitt til fákeppni á nær öllum sviðum viðskiptalífsins, sem aftur hefur leitt til sjálftöku ofurlauna og bónusa forréttindafólksins sem á þau og stýrir þeim. SE veitir því litla athygli að virkir markaðir eru að hverfa fyrir þess eigin tilstuðlan, en eltist við að sanna „samráð“, sem er bein afleiðing fákeppninnar sem hún heimilar. Stjórnmálamenn láta SE villa um fyrir sér með myndarlegum sáttagreiðslum fyrirtækjanna í ríkissjóð, sem þau velta óðara út í verðlagið.
Náttúra landsins, lífríki og hreinleiki, ásamt tungu og menningu, eru verðmæti sem okkur er falið að varðveita. Við tölum að vísu meira en við framkvæmum, en samt er óhætt að segja að skilningur og samstaða sé um þetta.
Átroðningur ferðamanna við náttúruperlur landsins sýnir okkur að skammtíma peningasjónarmið gæta þeirra ekki og ekkert finnst í oft tilvitnuðum reglum ESB um hvernig brugðist skuli við.
Gríðarleg aukning í fiskeldi, með tilheyrandi fóðurnotkun og þar með úrgangi við kvíarnar, og gífurlegri notkun eiturefna sem drepur laxalús (og önnur skeldýr í leiðinni) sýnir okkur að frjáls för fjármagns og þar með réttur fjársterkra manna í öðrum löndum til að fénýta íslenska náttúru, er sterkari en innlend varfærnis- og verndarsjónarmið.
Frjáls för vinnuafls um EES hefur leitt til stórfelldra samfélagsbreytinga. Atvinnuleysi er í raun stórlega neikvætt (í mínus). Enska er töluð á veitingastöðum og leikskólar eru mannaðir útlendingum þó börnin séu á máltökualdri.