Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra sagði á Alþingi í morgun að eðlilegt sé að hafa tollvernd til að verja íslenska framleiðslu. Hann sagði okkur ganga skemur en margar aðrar þjóðir hvað þetta varðar. Einkum nefndi hann Evrópusambandið.
Það var Brynhildur Pétursdóttir, Bjartri framtíð, sem spurði ráðherrann um hvort standi til að breyta tollum sem eru settir á kartöfuflögur og kartöflusnakk, en í ljós hefur komið að ekki er notast við innlendar kartöflur við framleiðsluna. Brynhildur var ósátt með viðbrögð ráðherrans, einkum að ekki standi til að gera breytingar sem gætu leitt til lægra matarverðs.
Sigurður Ingi sagðist vilja vitræna umræðu um matarverð hér, sem hann sagði vera það lægsta sem þekkist í samanburði við nálæg lönd.