- Advertisement -

Dýr afleikur ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks 2003 og Bjarni sagði já

Oddný Harðardóttir:

Það mun augljóslega draga úr trausti og trúverðugleika íslenska ríkisins. Fleiri orð um traust og trúverðugleika hæstvirts fjármálaráðherra eru óþörf.

Það var okkur dýrkeypt að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn færu saman í ríkisstjórn árið 2003. Sjálfstæðisflokkurinn vildi halda völdum og studdi Framsókn í húsnæðismálum með stórkostlegum afleik. Einn af þeim sem samþykkti afleikinn í þingsal árið 2004 var hæstvirtur fjármálaráðherra. Sömu flokkar höfðu skömmu áður einkavætt bankakerfið sem hrundi í október 2008 með tilheyrandi verðbólgu, gengisfalli, atvinnumissi, kaupmáttarrýrnun, eignatilfærslu og miklu tjóni fyrir almenning. Umræðan hér í dag er um traust og trúverðugleika íslenska ríkisins á fjármálamörkuðum. Því fylgir traust og trúverðugleiki hæstvirts fjármálaráðherra — og hvernig er því háttað?

Í fyrsta lagi skulum við líta tíu ár aftur í tímann. Í skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, sem birt var sumarið 2013, segir skýrt um afleikinn, með leyfi forseta: „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“ Árið 2013 lá þetta allt fyrir en hæstv. fjármálaráðherra svaf á verðinum.

Í öðru lagi liggur fyrir lögfræðiálit sem segir að áform ráðherrans í þessu máli séu brot á einkaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ekki eykur það traustið á ráðherranum eða fyrirætlunum hans.

Og meðal vondu kröfuhafanna, sem fjármálaráðherra talar hér um, er Styrktarsjóður hjartveikra barna.

Í þriðja lagi er talað um að áform þessa sama ráðherra muni leiða til afar kostnaðarsamra dómsmála á hendur ríkisins, sem sagt á hendur almennings.

Í fjórða lagi segja allir lífeyrissjóðirnir að áform ráðherrans muni leiða til tugmilljarða króna tjóns fyrir almenning í landinu vegna tapaða lífeyrisréttinda. Og meðal vondu kröfuhafanna, sem hæstvirtur fjármálaráðherra talar hér um, er Styrktarsjóður hjartveikra barna.

Sá ráðherra sem nú þarf að svara umboðsmanni Alþingis vegna sölu á hlut í Íslandsbanka til útvalinna leggur til að íslenska ríkið gangi á bak orða sinna og standi ekki við gerða samninga. Það mun augljóslega draga úr trausti og trúverðugleika íslenska ríkisins. Fleiri orð um traust og trúverðugleika hæstvirts fjármálaráðherra eru óþörf.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: