Stjórnmál

Dulnefni yfir kakómjólkurlíki

By Ritstjórn

February 07, 2019

Gunnar Smári skrifar:

Ég sá þetta auglýst. Næring+ heitir þetta. Hvað skyldi það nú vera? Spyr sá sem ólst upp þegar matur hét það sem hann var, hvaðan hann kom (tómatsósa, kakómjólk, kartöflumús, grísasnitzel) en ekki það sem hann vildi sannfæra okkur um að hann gerði okkur (Hreysti, Næring+, Orkustykki, Easy eða Ísey). Ég veit ekki hvort þessi aðskilnaður matar frá hráefninu sé til góðs, hvort það leiði til þess að við borðum betri mat. Mín reynsla er að matur sem heitir eitthvað annað en hann er, felur hvert hráefnið eða innihaldið er, sé vondur.

En hvað er Næring+? Næring+ með kaffi & súkkulaði er: Undanrennuþykkni, rjómi, maltódextrín, sykur (1,5%), inúlíntrefjar, bindiefni (ein- og tvíglýseríð fitusýra, sellulósa, karragenan, karboxímetýlsellulósa), fituskert kakó, bragðefni, laktasaensím, kalk, járn, kopar, A-, C-, D- og E-vítamín.

Næring+ með bara súkkulaði er nánast það sama: Undanrennuþykkni, rjómi, maltódextrín, sykur (1,9%), inúlíntrefjar, fituskert kakó (0,9%), bindiefni (ein- og tvíglýseríð fitusýra, sellulósa, karragenan, karboxímetýlsellulósa), laktasaensím, bragðefni, kalk, járn, kopar, A-, C-, D- og E-vítamín.

Þetta er sem sé eins og kakómjólkin gamla nema hvað í hana er notuð mjólk en ekki undanrennuduft. Svo er bætt við eins og einni pillu af vítamín- og steinefnablöndu. Og grunsamlega mikið af bindiefnum, líklegast til að áferðin gefi til kynna að þetta sé næringarríkur drykkur en ekki lapþunnt uppleyst undanrennuduft. Þetta ætti að kallast vítamínbætt og þykkt kakómjólkurlíki. Sem er náttúrlega afleitt nafn. Það langar engan í vítamínbætt og þykkt kakómjólkurlíki. Þess vegna heitir þetta Næring+