„…hið stolna fiðrildi hlyti eftir það að vera allar framabjargir bannaðar.“
„Þingmenn hafa ótal sinnum setið að sumbli, utan lands. Af því eru til sögur, sannar og lognar, og koma hinir mætustu menn við sögu, sumir löngu dánir sögufrægir og dáðir. Forðum var umhendis að sitja á hleri og þótti jafnvel skammarlegra en skrautlegt tal. Á löngum tíma hefur margt verið talað eftir að vínið tryggði að mönnum varð lausari tungan en endranær. Sjálfsagt fengi fæst af slíku tali fegurðarverðlaun þótt í minningu gleðskaparmanna hafi margt verið löðrandi í snilld.“
Þannig skrifar Davíð Oddsson, sem þekkir manna best til í þingheimi, innanlands og utan. Hann ver Klaustursþingmennina.
„Það getur ekki ráðið því hvort maður sé formaður nefndar hvort hann hefur setið að sumbli með jafningjum sínum og sagt meira en hann sjálfur síðar kaus. Það væri annað mál hefði maðurinn viljandi hrópað skætinginn yfir lýð sem kom engum vörnum við. Nú er látið eins og að sökin felist í því að hafa verið hleraður. En varla fær það staðist. Þar með væri þingheimur að telja að ekki sé lengur saknæmt að aka ökutæki ofurölvi. Lögbrotið felist í því að láta nappa sig. Hin bannfærða regla, sé hún til og skyndilega praktíseruð, hlýtur að vera sú að hafa ölvaður í lokuðum hópi sagt eitthvað sem allsgáðir væru ólíklegir til.“
Og að endingu rifjar hann upp söguna þegar Steingrímur J., nú forseti þingsins, stal fiðrildi í ríkiseigu og færði nafna sínum Hermannssyni að gjöf.
„Ef talið væri að slíkt athæfi útilokaði að slíkir yrðu nefndarformenn, svo ekki sé talað um þingforseta, þyrfti rannsókn og yfirheyrslur í hvert skipti. Einstaklingi sem t.d. í þingmannahópi vel slompaðra hefði stolið stærsta fiðrildi í heimi af skrifstofu umhverfisráðherra og jafn slompaður farið óboðinn í afmæli til fyrrverandi forsætisráðherra og gefið honum þar hið stolna fiðrildi hlyti eftir það að vera allar framabjargir bannaðar.“