- Advertisement -

Drífa fer í forsetaframboð ASÍ

Okkar bíður það verkefni að auka lífsgæði hinna mörgu og stemma stigu við græðgi hinna fáu. Græðgi er talin til kosta og auðurinn hefur safnast á fáar hendur. Þeir sem lifa af sívaxandi auði sínum hafa misst tengsl við samfélagið og kjör almennings.

Verkalýðshreyfingin er kraftaverkahreyfing. Hún hefur lyft grettistaki til að auka lífsgæði fólks, hvort sem horft er til húsnæðismála, almannatrygginga, aukins jöfnuðar eða hækkunar launa.

Síðustu áratugi hefur hallað undan fæti í samfélaginu hér heima og heiminum öllum. Græðgi er talin til kosta og auðurinn hefur safnast á fáar hendur. Þeir sem lifa af sívaxandi auði sínum hafa misst tengsl við samfélagið og kjör almennings. Grunnskilyrði góðs lífs, svo sem viðráðanlegt húsnæðisverð, eru undirseld spákaupmennsku. Vinnandi fólk á allt sitt undir því hvort stórfyrirtæki telji það nógu arðbært að veita sómasamlegt húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Við þetta bætist að verkalýðshreyfingin á í vök að verjast þegar kemur að réttindabrotum og félagslegum undirboðum. Upplýsingum um lög, reglur og réttindi er haldið frá fólki til að geta klipið af launum þeirra og félagsleg undirboð eru orðin varnarlína þeirra sem starfa í verkalýðshreyfingunni.

Enn fremur hefur skattkerfið, sem er mælikvarði á siðmenntað samfélag, á síðustu árum verið sveigt í þágu hinna ríku gegn vinnandi fólki. Áhrif tekna og búsetu á menntun og heilsu almennings hafa aukist til muna og sjást nú á stærðargráðu sem við höfum ekki séð í áratugi. Hættan er sú að til verði tvö aðskilin samfélög ríkra og fátækra, þar sem hinir efnameiri kaupa sig fram fyrir röðina í heilsugæslu, menntun og annarri almannaþjónustu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Okkar bíður það verkefni að auka lífsgæði hinna mörgu og stemma stigu við græðgi hinna fáu. Verkalýðshreyfingin er mikilvæg sem aldrei fyrr og hún má ekki bregðast á ögurstundu. Hér á landi starfar ein sterkasta verkalýðshreyfing heims og það er mikið ábyrgðahlutverk að ná að sameina hana um hag okkar allra. Það verður mikilvægasta verkefni næsta forseta ASÍ.

Um leið og ég þakka kærlega fyrir allar þær fjölmörgu áskoranir sem ég hef fengið innan sem utan verkalýðshreyfingarinnar lýsi ég því yfir að ég gef kost á mér í embætti forseta ASÍ á þinginu sem sett verður 24. október næstkomandi.

Drífa Snædal.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: