„Við erum með frekar flókið regluverk utan um það hvernig við komum svona framkvæmdum á koppinn og það er hægt að gera betur í því. Minn vilji stendur til þess,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra á Alþingi, þegar hún talaði um rafmagnsleysi víða um land.
„Það hefur tekið of langan tíma að gera til að mynda þær mikilvægu breytingar á meginflutningskerfinu sem hefur þurft að gera. Ég segi þó líka að það hafa verið mjög miklar framkvæmdir í kerfinu, bæði dreifikerfinu og flutningskerfinu. Dreifikerfið er að langmestu leyti komið ofan í jörð þannig að það skilar líka sínu. Ég ætla ekki að fella einhvern áfellisdóm yfir þeim sem hafa unnið hörðum höndum undanfarna daga heldur.“