Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp sem móta skal tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla. Hópnum er ætlað að benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur við vinnslu matvara sem og fullunnar matvörur eftir að þær eru komnar til neytenda, veitingastaða, framleiðenda og söluaðila. Þá skal hópurinn leggja fram tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun, m.a. áhrif umbúða og skammtastærða. Loks skal hópurinn meta hvaða stjórntæki geta gagnast við að draga úr matarsóun og hvort þörf sé á breytingum á lögum og reglum sem áhrif geta haft á sóun matvæla.