„Mörgum finnst það merki um ómerkilegan hugsanagang smáborgarans að láta sig dreyma um að launafólk geti tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að eignast í fyrirtækjum, litlum og stórum. Fátt virðist verra í huga fjandmanna einkaframtaksins en að almenningur nái að byggja enn eina stoðina undir eignamyndun með sparnaði í formi hlutabréfa. Tilraunir til að ryðja braut launafólks inn í atvinnulífið m.a. með skattalegum hvötum eru eitur í beinum þeirra,“ þannig byrjar Óli Björn Kárason Moggagrein sína í dag.
Enn á ný viðrar hann þá framtíðarsýn að við almenningur felum viðskiptalífinu að ávaxta sparipeningana okkar. Það er of skammt frá hruninu. Sárin eru ekki gróin. Allur almenningur hlýtur að varast frekari þátttöku en gert er með lífeyrissjóðunum. Óli Björn og aðrir verða að skilja að það verður að vinna sér inn traust. Traustið vantar og þá um leið áhugann og viljann.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð barist fyrir þátttöku almennings í atvinnulífinu,“ skrifar Óli Björn og endar grein sína svona: „
„Ungir sjálfstæðismenn lögðu grunninn að þeirri baráttu þegar á fjórða áratug síðustu aldar. Markmiðið hefur verið skýrt; að gera launafólk að eignafólki, tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þess og skjóta styrkari stoðum undir fyrirtækin – einkaframtakið. Eykon [Eyjólfur Konráð Jónsson] nefndi þennan draum „auðræði almennings“. Hann var sannfærður um að trygging fyrir heilbrigðu samfélagi og lýðræði væri að sem allra „flestir einstaklingar séu fjárhagslega sjálfstæðir; þeir eigi hlutdeild í þjóðarauðnum, en séu ekki einungis leiguliðar eða starfsmenn ríkisins“. Pólitískir lukkuriddarar og óvildarmenn einkaframtaksins skilja ekki drauma af þessu tagi og kaldur hrollur hríslast um þá alla við þá tilhugsun að almenningur og atvinnulífið eigi með sér nána og opna samvinnu.“
Óli Björn Kárason og aðrir þeir sem reyna allt hvað þeir geta til að koma krumlunum í sparifé hins venjulega Íslendings verður að gera betur en þetta. Sparibaukarnir eru lokaðir.