Greinar

Draumur fátæks verkafólks var að eignast húsnæði og komast af leigumarkaði

By Miðjan

November 30, 2024

Við erum Reykjavík norður. Ég heiti Gunnar Smári Egilsson og er í fyrsta sæti á lista Sósíalista í Reykjavík norður. Ég hef búið víða um borgina, á myndinni stilli ég mér upp við þessa blokk í Ljósheimum þar sem fjölskyldan bjó bæði á fimmtu hæð og síðan í lítilli húsvarðaríbúð í kjallaranum. Ég var átta ára þegar við fluttum í Ljósheimana og hafði þá áður búið á fjórum stöðum. Við vorum fjölskylda sem sjúkdómur, skilnaður og veikt öryggisnet hafði þrýst niður í fátækt. Og fátæktinni fylgdu tíðir flutningar, ný hverfi, nýir skólar, nýir vinir – allt sem rótleysið bíður upp á. Hin fátæku fá svo margt með fátæktinni. Vogahverfið var barnmargt á þessum árum. Við börnin gengum út í okkar eigin veröld sem hin fullorðnu þekktu lítið til. En það var líka pláss fyrir okkur í heimi hinna fullorðnu. Bókasafnið í Sólheimum var hljóðlát félagsmiðstöð, svo lítið að ég ákvað að lesa allar bækurnar og byrja á bókinni lengst til vinstri í efstu hillu í fremsta skáp. Það var mikið sungið í skólanum og þar voru tannlæknar sem sinntu börnunum án endurgjalds. Það var hráslagi í mannlífinu á þessum árum en það var líka vísir af skárra samfélagi, von um betri heim. Draumur fátæks verkafólks var að eignast húsnæði og komast af leigumarkaði, hætta að lifa eins og flóttafólk í eigin landi. Um það leyti sem við fluttum í Ljósheimana var byrjað að byggja upp Breiðholtið. Fjórum árum fyrr hafði Alþingi fallist á samning Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins um að 1% launaskattur rynni til framkvæmdanefndar sem falið var að leysa húsnæðiskreppuna, sem gróf undan lífskjörum og öryggi fólks með lágar tekjur. Framkvæmdanefndin stóð fyrir nýjungum og byggði upp íbúðir sem láglaunafólk réð við að kaupa og Byggingasjóður veitti fólki lán á hagfelldum vöxtum. Fjórum árum eftir að við fluttum í Ljósheimana fékk mamma úthlutað íbúð í Unufelli og við fluttum þangað ári síðar. Í millitíðinni höfðu bræður mínir flutt ungir að heiman, mamma gifst manni og eignast með honum hálfbróðir minn. Fjölskyldan hafði breyst og þegar við komum í Breiðholti fannst mér ég hafa misst mína fjölskyldu. Þegar lífsbaráttan var hörð þá hertust líka böndin. Við bræðurnir og mamma vorum eins og lítill herflokkur á bak við víglínu óvinarins, lifðum af með því að standa saman. Fyrsta árið í Breiðholti var ég áfram í Vogaskóla, fór síðan einn vetur í Fellaskóla og síðan í heimavistarskóla í Reykjanesdjúpi og kom aldrei aftur heim. Ég man þegar mamma kom heim í Ljósheimana eftir að hafa þurft að hitta fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í úthlutunarnefnd verkamannabústaða. Eins og annað fátækt fólk hafði hún þurft að niðurlægja sig fyrir framan þennan mann, sýna sig brotna og bjargarlausa að biðja sterka manninn um náð. Hún lokaði útidyrahurðinni og lamdi svo töskunni í vegginn, fór úr kápunni og ræddi það aldrei hvað þeim fór á milli. Íbúðin í verkamannabústöðunum breytti lífi mömmu, færði henni efnahagslegt öryggi eftir margra ára basl, flutninga milli leiguíbúða og nagandi afkomukvíða, reynandi að brauðfæða okkur strákana og gefa okkur öryggi, gleði og gott líf. Í endurliti man ég eftir mömmu þreyttri, bugaðri, eins og í viðvarandi áfallastreitu. Auðvitað ekki alla daga, en nógu marga svo að lítill drengur gat saknað mömmu sinnar þótt hún væri fyrir framan hann. En þegar árin liðu upp í Unufelli sá ég mömmu lifna við, verða glaðari og bjartari, eftir því sem þrúgandi ótti hinna fátæku lyftist af öxlum hennar. Lífið er flókið og hamingja okkar er ofin úr margvíslegum þráðum. Fæst af því er nokkuð sem kemur stjórnvöldum við. En ef stjórnvöld taka alvarlega hlutverk sitt að tryggja öllum almenningi öryggi, þá hafa fleiri tækifæri til að teygja sig eftir því sem færir þeim hamingju. Fjárhagslegir erfiðleikar, fátækt og basl leggst yfir líf fólk eins mara og dregur úr því afl. Fátækt er harmur, en líka tilgangslaus sóun og grimmd sem beinist að saklausum. Pólitík er persónuleg. Vilji okkar til að breyta samfélaginu byggir á reynslu okkar og hvernig við túlkum hana. Ég gæti tekið fleiri dæmi úr fjölskyldusögu minni sem sýna hvernig aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda hafa lyft eða kúgað fólk og fjölskyldur. Það er út af þessum skilningi sem ég er sósíalisti og bíð mig fram til að breyta Alþingi svo það starfi í þágu þeirra sem verða harðast fyrir óréttlæti samfélagsins