- Advertisement -

Dóra Björt mjög ósátt við Sönnu

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og hluti meirihlutans í borgarstjórn, er ósátt við orð Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, um hækkun húsaleigu Félagsbústaða.

Í gær sagði Sanna: „Í árshlutareikningi kemur fram að hækka þurfi leiguverð hjá Félagsbústöðum um 7% til viðbótar á árinu til að tryggja jafnvægi í sjóðstreymi árin 2018 og 2019 m.v. að verðbólguforsendur fjárhagsáætlunar standist. Samkvæmt frekari útskýringum er átt við 2% hækkun að auki við þá 5% hækkun á leiguverði sem hefur nýlega átt sér stað.“

Þessu hafnar Dóra Björt og vitnar til bókunar meirihutans. Þar segir að reynist þörf á tryggja Félagsbústöðum meiri peninga verði farnar aðrar leiðir en að hækka leigu:

„Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hækkun á leigu Félagsbústaða og engin áform uppi þar um. Reynist ástæða til mun borgin finna aðrar leiðir til að tryggja að uppbyggingaráætlun Félagsbústaða gangi eftir en rýri ekki fjárhag félagsins.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Dóra Björt lýsir í mörgum orðum vonbrigðum sínum með Sönnu Magdalenu:

„Mér þykir leitt þegar fólk í stjórnmálum leyfir sér vísvitandi að þyrla upp ryki ranginda í augu almennings. Af hverju leyfir Sanna sér að láta líta út fyrir að það séu uppi áform um að hækka leigu í Félagsbústöðum þegar það er beinlínis rangt? Mér sárnar þetta því ég vænti meira af henni.“

Og svo segir Dóra Björt: „Eina af tillögunum valdi borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins og lét það líta út fyrir að það væri pólitískt búið að ákveða að verða við henni, sem er hreinn og beinn uppspuni. Og nú heldur fullt af fólki að þetta sé í pípunum! Svona vinnubrögð eru náttúrulega ekki í lagi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: