obi.is: Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað algerlega frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins, í máli Öryrkjabandalagsins gegn stofnuninni, og tekið málið til efnislegrar meðferðar. Málareksturinn hefur nú tafist um ár vegna þessarar kröfu TR, og sífelldra fresta sem ríkislögmaður fór fram á.
Í úrskurði sínum segir héraðsdómur að með aðalkröfu sinni leitist stefnandi við að knýja á um greiðslu vangreiddra bóta sem stefnandi telur sig eiga rétt á, þar sem gildandi ákvæði laga og reglugerðar á tímabili dómkröfu, um skerðingu sérstakrar uppbótar til framfærslu vegna tekna, króna á móti krónu, hafi strítt gegn stjórnarskrá, einkum jafnræðisreglu hennar. Öryrkjabandalagið hefur aðallega uppi viðurkenningakröfu fyrir hönd örorku- og endurhæfingalífeyrisþega sem stefnir að sama markmiði og aðalkrafa stefnanda og er byggð á sömu málsástæðum.
Athugasemdir TR lutu einkum að því að kröfugerð stefnenda í heild sinni hafi ekki verið dómtæk, þar sem hún sé miðuð við réttindi sem engin stoð sé fyrir í settum lögum. Sérstök uppbót til framfærslu sé reiknuð út með öðrum hætti og á öðrum forsendum en sameinaður ellilífeyrir. Þar af leiðandi fái ekki staðist að styðja stefnukröfur málsins við lækkunarhlutfall og frítekjumörk annar hóps lífeyrisþega.
Í niðurstöðu dómara segir að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið gengið út frá því um langt skeið að dómstólar séu til þess bærir að líta framhjá og víkja þannig til hliðar ákvæðum laga sem stríða gegn stjórnarskránni. Ekki verði séð að með dómkröfum stefnenda sé dómstól ætlað að fara inn á svið framkvæmdavaldsins, enda sýnist ágreiningurinn fyrst og fremst snúast um lögbundin réttindi, en ekki svið þar sem stjórnvöldum er eftirlátið mat.
Að þessu gættu eru ekki efni til þess að vísa aðalkröfum stefnenda frá dómi vegna fyrirmæla 2. gr. stjórnarskrárinnar, og verður að telja sakarefnið heyra undir dómstóla. Þá verði ekki séð að aðalkröfur stefnenda séu svo vanreifaðar að frávísun þeirra varði.
Svo segir að aðrar athugasemdir TR sem færðar hafa verið fram við málatilbúnað stefnenda virðast að mestu varða efni máls, en leiða ekki til frávísunar. Samkvæmt því verður frávísunarkröfu TR alfarið hafnað og málið tekið til efnismeðferðar.
Gera má ráð fyrir að lokafyrirtaka málsins fyrir héraðsdómi verði í byrjun desember. Dómur fellur þá ekki fyrr en öðru hvoru megin áramóta.