- Advertisement -

Dómsmálaráðherra „vill síma nauðungarsölur“

Hagsmunasamtök heimilanna: Um þessar mundir sjá tugþúsundir heimila fram á algjöra óvissu og mjög erfiða fjárhagslega stöðu á komandi mánuðum, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Þess vegna hafa stjórnvöld í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, fyrirskipað algjöra stöðvun á öllum nauðungarsölum þar til þetta ástand verður yfirstaðið.

Ekkert er minnst á gerðarþola.

Það skýtur því skökku við að á sama tíma skuli dómsmálaráðherra Íslands leggja fram frumvarp til flýtimeðferðar sem er beinlínis að greiða götu kröfuhafa til að framkvæma aðfarir og nauðungarsölur á auðveldari hátt en nokkru sinni fyrr með því að gera þær rafrænar.

Það er vandséð að slík lagabreyting flokkist undir einhverja neyð vegna kórónuveirunnar en auk þess felur hún í sér ískyggileg skilaboð til heimilanna um forgangsröðun stjórnvalda á erfiðum tímum og er algjörlega á skjön við margítrekað ákall Hagsmunasamtaka heimilanna um að stjórnvöld tryggi að ekki einn einasti íbúi landsins þurfi að missa heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldursins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta snýst ekki eingöngu um fjárhagslega hagsmuni.

Það bætir svo gráu ofan á svart að í lagabreytingunum er ekki minnst einu orði á gerðarþola eða neytanda, heldur er verið að heimila að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda, fjármálafyrirtæki, í gegnum síma eða fjarfundabúnað og að það jafngildi því að gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur fyrirtökuna í skilningi laganna. Ekkert er minnst á gerðarþola í þessu sambandi eða hvernig tryggja skuli möguleika hans á aðkomu að fyrirtöku til að gæta réttar síns.

Þær tillögur sem gerðar eru í umræddum ákvæðum frumvarpsins eru hreinlega fáránlegar á þessum tímapunkti, svo ekki sé minnst á þá gjörsamlega óverðskulduðu þjónkun við gerðarbeiðendur og þá grófu mismunun í garð gerðarþola sem birtist í ákvæðum og orðalagi þeirra.

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka þá sjálfsögðu kröfu sína stjórnvöld tryggi að engin fjölskylda missi heimili sitt vegna afleiðinga kórónuveirunnar. Auk þess þarf að stöðva nauðungarsölur og aðfarargerðir þar sem gerðarþoli er neytandi, þar til efnahagsleg áhrif veirunnar eru orðin ljós og samfélagið að komast í eðlilegt horf.

Heimilin verða að fá fullvissu fyrir því að öryggi þeirra verði tryggt á þessum óvissutímum og í því sambandi er ekki síður mikilvægt hvaða skilaboð stjórnvöld senda frá sér með aðgerðum sínum.

Þetta snýst ekki eingöngu um fjárhagslega hagsmuni heldur einnig um vernd mannréttinda og lýðheilsu þar sem langvarandi áhyggjur og kvíði geta leitt til alvarlegra heilsufarslegra og félagslegra vandamála.

Að gefnu tilefni vilja Hagsmunasamtök heimilanna minna á að aðgerðir stjórnvalda eftir hrunið höfðu skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir þúsundir heimila og tugþúsundir einstaklinga. Þær eru því ekki til eftirbreytni. Beinar afleiðingar þeirra eru eftirfarandi:

  • 15.000 heimilum hefur verið fórnað fyrir bankana
  • 173.000 fjárnám hafa verið gerð hjá einstaklingum
  • 135.000 þessara fjárnáma voru árangurslaus
  • 650.000.000.000 kr. er HAGNAÐUR bankanna frá hruni

Þetta er ekkert til að hrósa sér af og það má alls ekki endurtaka sig að efnahagskerfið verði “endurreist” á kostnað heimilanna í þetta sinn!

Þau skilaboð eru ekki til að skapa traust á erfiðum tímum.

Hagsmunasamtök heimilanna beina því til ríkisstjórnar Íslands að hún íhugi þá vegferð sem hún er á geri upp við sig hvernig þjóðfélag hún vilji sjá þegar baráttunni við kórónuveiruna lýkur.

Ríkisstjórnin þarf að svara því hvort, og þá hvernig, það sé íslensku samfélagi til góðs ef bæði fyrirtæki og heimili verða þá að stórum hluta í eigu bankanna eða undir “náð og miskunn” þeirra komin?

Þegar þessi lagabreyting dómsmálaráðherra bætist ofan á tregðu ríkisstjórnarinnar til að tryggja hag heimilanna með “þaki” á verðtryggingu leigu og lána og æpandi þögn hennar um hagsmuni þeirra, blasa við þjóðinni skilaboð um forgangsröðun sem er ekki í þágu heimilanna heldur fjármálafyrirtækja. Þau skilaboð eru ekki til að skapa traust á erfiðum tímum heldur ýfa þau upp ótta sem er nægur fyrir.

Kórónuveiran er “Force Majeure” og þó kannski verði ekki hægt að bjarga öllum, er hægt að tryggja það að engum verði gert óþarflega erfitt að koma undir sig fótum á ný.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á ríkisstjórnina og alla þingmenn að sjá sóma sinn í því að tryggja hag heimilanna á erfiðum tímum og fresta öllum nauðungarsölum á heimilum landsins út þetta ár.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: