- Advertisement -

„Dómsmálaráðherra lýsir yfir stríði“

Velferðarkerfið er í molum og úrræðaleysið er algjört.

„Stríð. Stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi, stríð gegn fíkniefnum, stríð gegn jaðarsettu fólki. Dómsmálaráðherra lýsir yfir stríði; stríði á hendur einstaklingum sem kerfið og samfélagið hefur brugðist ítrekað. Hvernig má það vera að árið 2022 geti dómsmálaráðherra talið að lausnin við afbrotahegðun felist í því að fara í stríð? Miðað við allt sem vitað er um hegðun er ótrúlegt að því sé haldið fram að það sé einhver lausn fólgin í því að fara í stríð. Stríð leysir engin vandamál. Það býr til fleiri ófyrirséð vandamál og magnar núverandi vandamál upp,“ sagði Eva Sjöfn Helgadóttir Pírati.

„Aukning alvarlegra ofbeldisbrota hjá ungu fólki verður ekki leyst með auknum vopnaburði og beitingu vopna. Málið leysist ekki með því að beita meiri hörku, þvert á móti. Það þarf að horfa á stóru myndina og leysa vandann með því að setja miklu meira fjármagn, kraft og vilja í velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið svo hægt sé að sinna einstaklingum sem eru hjálparþurfi á réttan hátt. Alvarlegum ofbeldisbrotum unglinga og barna hefur fjölgað mikið síðastliðinn áratug. Það er greinilega eitthvað alvarlegt að í kerfinu okkar. Við niðurgreiðum sálfræðiþjónustu. Við hrekjum sálfræðinga úr heilsugæslunum. Barna- og unglingageðdeild annar ekki neyðinni.“

„Velferðarkerfið er í molum og úrræðaleysið er algjört þegar kemur að ungu fólki með flókinn hegðunar- og geðvanda. Dómsmálaráðherra er á rangri leið. Ríkisstjórnin þarf að horfast í augu við þennan vanda og laga hann strax. Velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið öskrar á aðstoð. En nei, segir dómsmálaráðherra og ríkisstjórnin. Þau vilja heldur hella olíu á eldinn og stigmagna vopnavæðingu enn frekar, enn hraðar með enn einu stríðinu. Við þurfum raunverulega mannúð, aðgerðir sem skila raunverulegum árangri. Aukið ofbeldi og jaðarsetning skilar engum árangri,“ sagði Eva Sjöfn Helgadóttir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: