Mikill tími og mikil orka hefur farið í það hjá nefndarmönnum að reyna að fá hæstvirtan dómsmálaráðherra til að stuðla að því að umbeðin gögn yrðu afhent allsherjar- og menntamálanefnd.
Eyjólfur Ármannsson.
„Hæstvirtur dómsmálaráðherra sýndi með framkomu sinni Alþingi mikið virðingarleysi, virðingarleysi fyrir störfum Alþingis og þeirri vinnu sem fer fram á Alþingi og í allsherjar- og menntamálanefnd við undirbúning löggjafar. Hér er ekki um að ræða undirbúning undir stjórnvaldsákvörðun hjá Útlendingastofnun líkt og hæstvirtur dómsmálaráðherra ber fyrir sig. Undirbúningur undir löggjöf og undirbúningur undir stjórnvaldsákvörðun eru tveir gjörólíkir hlutir. Stjórnsýslulög eiga ekki við um mál sem eru til afgreiðslu á Alþingi Íslendinga. Svo einfalt er það. Skiptir þá engu hvar sú vinna fer fram, hvort hún fer fram hjá stofnun eða hjá einkaaðila. Stjórnsýslulögin eiga einfaldlega ekki við um umsagnir við lagafrumvörp sem eru til afgreiðslu á Alþingi Íslendinga.“ sagði Eyjólfur Ármannsson á Alþingi í dag.
„Það að hæstvirtur dómsmálaráðherra hafi staðið að því að nefndin hafi ekki fengið þær upplýsingar og þau gögn sem nefndin bað um, vegna vinnu við lagafrumvarp sem var í smíðum, hefur valdið miklum töfum í störfum nefndarinnar og þyngt mjög vinnu í nefndinni og er ekki á bætandi. Mikill tími og mikil orka hefur farið í það hjá nefndarmönnum að reyna að fá hæstvirtan dómsmálaráðherra til að stuðla að því að umbeðin gögn yrðu afhent allsherjar- og menntamálanefnd. Hæstvirtur dómsmálaráðherra hefur unnið markvisst gegn nefndinni með hegðun sinni í þessu máli og þar með komið í veg fyrir að allsherjar- og menntamálanefnd geti sinnt störfum sínum sem skyldi.“