Stjórnmál

Dómgreindarbrestur dómsmálaráðherra

By Miðjan

February 24, 2021

„Fyrir réttarkerfið hefur það allt að segja að það bæði starfi sjálfstætt og ásýndin sé að svo sé. Undir þennan hatt falla dómstólarnir, ákæruvaldið og lögreglan. Sjálfstæði þessara stofnana er í raun súrefni þeirra. Þess vegna verður það alltaf að vera algerlega skýrt að þær fái að starfa þannig að raunverulegt sjálfstæði þeirra geti aldrei verið dregið í efa,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn, á þingi í dag. Tilefnið þekkja allir.

„Ég ætla ekki að standa hér og fullyrða neitt um það af hvaða ástæðu dómsmálaráðherra kaus sjálf að hringja í lögreglustjóra tvisvar á aðfangadag, enda veit ég það ekki umfram þær skýringar sem ráðherra hefur sjálf gefið á því. En skýringar hennar sjálfrar benda hins vegar til þess að erindið hefði í það minnsta mjög auðveldlega getað sett lögreglustjóra í óþægilega stöðu, símtal hennar sjálfrar til lögreglustjóra. Hvarflaði það virkilega ekki að ráðherra að samskiptin og bein símtöl hennar sjálfrar til lögreglustjóra væru óeðlileg á þessum tímapunkti, til lögreglustjóra sem þarna var í blábyrjun rannsóknar á meintum brotum á sóttvarnalögum af hálfu samflokksmanns þessa ráðherra og formanns?

Krafan er ekki bara sú að stjórnvöld tjái sig ekki um einstök mál heldur gæti þess í hvívetna að snerta ekki á þeim heldur og að þau gefi aldrei annað til kynna. Mér finnst símtal ráðherra til lögreglustjóra á þessum tímapunkti því miður til þess fallið að vekja upp spurningar á skilningi á þessum mörkum. Ég ber fullt og óskorað traust til lögreglunnar í þessu máli sem öðrum en hegðun og gerðir ráðherra þennan dag finnst mér hins vegar mikill dómgreindarbrestur og kalla á það að ráðherra svari því af hvaða ástæðu hún hafði samband við lögreglustjóra þennan dag og eftir hverju hún var að leita.“