- Advertisement -

Deyða Nýsköpunarmiðstöð í dag – Þingmenn vita að málið er skaðlegt

Þingmenn hafa bara ekki dug til að standa í lappirnar og nenna ekki veseni þótt stórir hagsmunir séu undir.

Atli Þór Fanndal skrifar:

Í dag ætlar stjórnarmeirihlutinn á þingi að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð. Það mun gerst svona í kringum 14.30 í dag. Ef þú hefur ekkert heyrt af þessu er þér fyrirgefið. Fjölmiðlar hafa engan áhuga sýnt á þessu máli þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölda aðila til að fá einhversskonar umfjöllun um hvað raunverulega stendur til.

Nýsköpunarráðherra lagði fyrir nokkrum mánuðum fram frumvarp sem er svo mikil hrákasmíð að 2/3 af þeim 45 umsögnum sem bárust í samráðsgátt eru ekki bara neikvæðar heldur afspyrnu neikvæðar. Sömu sögu má segja af þeim rúmlega 30 umsögnum sem bárust Alþingi. Frumvarpið er ekki tilbúið. Enginn stjórnarliði hefur varið frumvarpið í umræðum á þinginu utan framsögumanns sem verður að kynna meirihlutaálit.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra.

Fjöldi ríkisstofnana hefur sent inn umsagnir þar sem frumvarpið fær falleinkunn í vinnubrögðum, sveitarfélög hafa sömuleiðis gert hið sama. Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna tættu frumvarpið í sig. Vísindafélag Íslands, Félag náttúrufræðinga, Verkfræðifélg Íslands, Þekkingasetur Þingeyinga, Samtök þekkingasetra, Bændasamtökin, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og listinn heldur áfram. Háskólar, sveitarfélög, fyrirtæki, starfsfólk… jafnvel Vegagerðin gerir athugasemdir við vinnubrögðin. Það er sama hvaða hagsmuni er verið að tala fyrir alltaf er stefið hið sama: ráðherra vann ekki heimavinnuna sína og frumvarpið er ekki tilbúið. Það er ekki í samræmi við yfirlýst markmið, greiningar vantar og áætlanagerð fyrir hvað tekur við. Samræmi milli lagatexta og greinagerðar er ekki til staðar.

Stutt brot úr nokkrum umsögnum:

„Hér er á ferðinni alvarlega misráðið verkefni.“

„Mikilvægt er að vinna nánar að útfærslu þess fyrirkomulags sem lýst er í frumvarpinu.“

„Stjórn SSNE telur óásættanlegt að leggja fram jafn loðið og óljóst frumvarp líkt og raun ber vitni.“

„ Í frumvarpinu er í grundvallaratriðum litið framhjá þörfum nýsköpunar á frumstigi, sem þó er forsenda þess að markmiðum stjórnvalda um nýtingu hugvits til nýsköpunar verði náð“

„ekki er að sjá að áhersla á nýsköpun á landsbyggðinni fái umfjöllun í meginefni frumvarpsins.“

„Bæjarráð Akureyrarbæjar telur óásættanlegt að leggja fram jafn loðið og óljóst frumvarp og raun ber vitni.“

„Bæjarráð Akureyrarbæjar telur óásættanlegt að leggja fram jafn loðið og óljóst frumvarp og raun ber vitni.“
Mynd: sme/Miðjan.

„Því miður er fyrirliggjandi frumvarp Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun að sama skapi, að mati undirritaðs, samið án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til R&Þ, án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum, án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar, án þess að fullnægjandi tillit sé tekið til annarra þátta í starfsemi viðkomandi rannsóknastofnana atvinnuveganna en þeirra sem snúa að nýsköpunarumhverfinu, án greiningar á hvar helstu tækifæri Íslands í tæknirannsóknum liggi og án þess að áætlun liggi fyrir um markvissan stuðning við þau svið til að hámarka árangur af framlagi hins opinbera til tæknirannsókna og nýsköpunar í náinni framtíð. Undirritaður telur að réttast væri að fresta því að leggja fram umrætt frumvarp þar til niðurstöður slíkrar greiningarvinnu liggja fyrir.“

„Byggðarráð telur þó að andi meginmarkmiðs lagafrumvarpsins og þau atriði greinargerðarinnar sem fjalla um nýsköpun á landsbyggðinni endurspeglist ekki nægilega vel ílagatextanum sjálfum.“

„Þegar frumvarpið var til umsagnar í samráðsgátt gerði sambandið athugasemdir við að ekki væri vikið að úrræðum fyrir landsbyggðina í frumvarpstexta þrátt fyrir að landsbyggðin væri sérstaklega tilgreind sem áherslusvið í markmiðsyfirlýsingu“

„Stjórn skorar því eindregið á ráðherra að setja fram skýr mælanleg markmið, árangursmælikvarða, ábyrgðaraðila og fjármögnun. Auk þess er nauðsynlegt að útfæra með hvaða hætti ná skal því markmiði á landsbyggðunum að efla nýsköpun með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila.“

Sá skaði sem þegar hefur verið unnin af hálfu nýsköpunarráðuneytisins…

„Stjórn Verkfræðingafélags Íslands leggur eindregið til að málinu verði frestað og frumvarpið unnið frekar. Félagið ítrekar boð um aðstoð við bæta frumvarpið þannig að það þjóni sem best hagsmunum þjóðarinnar til fram tíðar.“

„Félagið gerir almennar athugasemdir við framkvæmd ráðherra það er að hefja niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) áður en fyrir liggi samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum sem ráðherra hefur leitt sl. mánuði. “

„Sá skaði sem þegar hefur verið unnin af hálfu nýsköpunarráðuneytisins á starfsemi stofnunarinnar vegna hirðuleysis um fagleg vinnubrögð og skilning á ábyrgð er samfélaginu kostnaðarsamur. Fjöldi starfsmanna hefur þegar fundið sér vinnu annarsstaðar. Starfsemi stofnunarinnar hefur dregist saman og stefnumótun og sókn til framtíðar verið lítil sem engin. Framgangur ráðuneytisins er ábyrgðarleysi á nýjum skala.

Vegna þess að ráðherra hefur beitt fyrir sig landsbyggðum og stuðning við nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins í þessu máli vill Space lceland benda á að tilkynningin ein og þrýstingur ráðuneytisins á að þjónusta stofnunarinnar sé ekki viðhaldið er þegar þess valdandi að aðeins eru fjórir starfsmenn eftir af 20 hjá Nýsköpunarmiðstöð sem tengjast stuðningi við frum kvöðla á frumstigi og fækkar í tvo á næstunni. Þeir voru 20 fyrir tilkynningu ráðherra í febrúar. Starfsemi á Ísafirði er farin, starfsemi á Akureyri er tóm skel í dauðateygjum. Stofnunin hefur ekki getað ráðið starfsfólk til að koma til móts atgervisflóttanum. Auðvelt er að segja sjálfum sér að breytingar kosti bara fórnir en í þessu máli er vandinn sá að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til að draga úr óvissu og skaða.“

Það mun taka mörg ár að bæta skaðann af þessu frumvarpi.

Í þessu máli hafa þingmenn Samfylkingar, Pírata og Miðflokksins haldið fjöldann allan af ræðum í þinginu og bent á mögulegar úrbætur. Space Iceland þurfti að fara í kæruferli hjá Kærunefnd upplýsingamála til að reyna að fá greiningar (þær eru einfaldlega ekki til ), Þingmönnum hefur verið skrifað bréf þar sem biðlað er til þess að þeir komi ekki fram við þingið eins og einhversskonar stimpilstofnun fyrir ráðherra. Við höfum sent ítrekaðar ábendingar á fjölmiðla um hvað er að gerast. Það er verið að leggja niður og eyðileggja núverandi kerfi án áætlunar um hvað tekur við. Málið var sent aftur til atvinnuveganefndar milli umræða. Ráðherra hefur að mínu mati misbeitt valdi sínu og þrýst svo mjög á lokun þrátt fyrir að hafa ekki lagaheimild að starfsfólk hefur hætt, frumkvöðlum hefur verið tilkynnt um að húsnæðinu verði lokað (og svo var það dregið til baka )Nýsköpunarmiðstöð tók um tíma ekki við nýjum aðilum í verkefni.

Allt hefur þetta gerst án umfjöllunar. Alveg sama hvað við höfum barist í þessu máli.

Hvernig má það vera að þingmál ráðherra sem enginn stjórnarþingmaður ver eða sér ástæðu til að verja er jafn óvinsælt meðal hagsmunaaðila nánast sama hvaða hagsmuni þeir eru að verja kemst bara samt í gegn og án opinberrar umræðu.

Það mun taka mörg ár að bæta skaðann af þessu frumvarpi. Frumvarpi sem þingmenn meirihlutans ætla að hleypa í gegn þvert á hagsmuni kjósenda sinna og þvert á yfirlýsingar um stóraukinn stuðning við nýsköpun bara til þess að ráðherra haldi haus.

Hér kristallast einmitt að þingið þarf að taka sér sjálfstæði ef það ætlar sér að vera sjálfstæð stofnun. Í þessu máli er sama upp á borðinu og í Landsréttarmálinu. Þingmenn vita alveg að málið er skaðlegt, illa unnið og ekki í samræmi við markmið sinna flokka. Þeir hafa bara ekki dug til að standa í lappirnar og nenna ekki veseni þótt stórir hagsmunir séu undir. Við skulum öll muna það þegar þeir þvo hendur sínar af niðurlagningu stoðkerfis nýsköpunar. Það er einmitt sá hluti nýsköpunarkerfisins sem aðstoðar okkur sem ekki erum blóðtengd milljarðamæringum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: