Þeir keyptu vanhirt Eimskip, óskabarn þjóðarinnar, í velgjörðarskyni við þjóðina.
Þröstur Ólafsson skrifar:
Miklir höfðingjar og rausnarmenn eru þeir Samherjamenn. Þeir keyptu vanhirt Eimskip, óskabarn þjóðarinnar, í velgjörðarskyni við þjóðina og notuðu til þess eiginfjármuni, sem þeir höfðu aflað í sveita síns andlits, með sífelldu skaki árið um kring á rýrum miðum landgrunnsins s.s. á Grímseyjarsundi og útaf Skagatá. Þetta er harðneskjan, vosbúðin og einsemdin umbúðalaus. Svo eru til auðnuleysingjar, aðallega í 101, sem vilja hrifsa til sín þennan fátæklega afgang sem samherjamenn með elju og þrotlausri ástund hefur tekist að nurla saman. Tilhæfulausar ásakanir í þeirra garð, hvern uppruna er að finna í Afríku, höfum við blessunarlega látið sem vind um eyru þjóta. Þegar nýja skipið þeirra Dettifoss er skráð í Færeyjum til að forðast ofurskatta hérlendis, býsnast menn yfir sjálfsbjargarviðleitninni. Það væri illa komið fyrir þeirri þjóð sem enga velgjörðarmenn ætti.