Davíð Oddsson er búin að fá nóg af RÚV. Kominn með upp í háls. „Einhvern tíma hlýtur það að gerast að „RÚV“ fái að búa við lágmarksstjórn eins og önnur fyrirtæki í landinu. Hvernig væri að auglýsa eftir útvarpsstjóra?“ Þetta eru lok leiðara dagsins. Hvað fer svona illa í ritstjórann. Jú, þetta:
„Enn heldur „RÚV“ áfram óskiljanlegum árásum á sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. (Glæpur hans virðist einkum sá að hafa verið skipaður, með samþykki þingsins, af Trump forseta.) Síðast í gær var flutt langt samtal um illsku sendiherrans og fór þar bandarísk kona, sem um skeið sat á þingi fyrir Bjarta framtíð, sem einnig átti stutt skeið á Alþingi. Eftir að hafa formælt sendiherranum gaf hún þá skýringu á andúð sinni að hafa ætlað sér að sækja um vottorð vegna nafnabreytingar og hefði þurft að gera það gegn um dyrasíma sendiráðsins! Ekkert benti til að núverandi sendiherra hefði haft eitthvað með fyrirkomulagið að gera!“
Hvað er að RÚV. Talað við konu sem eitt sinn var í Bjartri framtíð. Nú tók steininn úr. Meira úr leiðaranum:
„Andúð „RÚV“ á Bandaríkjunum er alþekkt og færist mjög í aukana komist stjórnmálalegir andstæðingar þess í meirihlutaaðstöðu á þingi eða í Hvíta húsinu. Fréttastofan hefur um skeið haft sérstakan fréttamann til að sjá um linnulausar árásir á núverandi forseta. Þótt sá hafi aðeins verið hvíldur, eftir að hafa farið offari, svo annar annaðist þetta stórmál með dyrasímann.“
Davíð kýs að upplýsa hina vonlausu fréttastofu:
„Hitt veit þessi sjálfhverfa fréttastofa bersýnilega ekki að Bandaríkin hafa varið stórbrotnum fjármunum til að tryggja öryggi nýs sendiráðs á Íslandi og hefur það allt ekkert með núverandi sendiherra að gera, og dellufréttirnar um öryggisvesti verða ömurlega smáar hjá því öllu.“ Og svo:
„Annar fréttamaður „RÚV“ sagði í vikunni að hinn umsetni sendiherra hefði sótt um það til íslenskra yfirvalda að fá að vera í skotheldu vesti(!) auk annars. Síðan hvenær hefur þurft heimild íslenskra yfirvalda til að velja sér vesti? Skotheld vesti skaða ekki nokkurn mann, nema hugsanlega þá sem burðast með þau.“
Þetta er mikið rétt. Hver og einn velur sér sitt veski. Annað gildir um byssu í beltisstað. Umfram allt. Fyrir okkur hin eru þetta skemmtifréttir. Ambassadorinn er kærkomið innlegg í júlíhaustið.