Davíð, sem meira að segja, var eitt sinn Seðlabankastjóri, sællar minningar, hefur að hann telur fundið orsakir verðbólgunnar og tilkynnir niðurstöðuna í Staksteinum dagsins:
„Verðbólgan hér á landi er orðin of mikil. Hún fer vonandi ekki úr böndum, en verðbólgumælingarnar þarf að taka alvarlega. Ýmislegt hefur áhrif til hækkunar, en það er líka ýmislegt sem hefur áhrif til lækkunar. Við venjulegar aðstæður ætti núverandi ástand í efnahagsmálum, sem orsakaðist af kórónuveirufaraldrinum, að draga úr verðbólgu. Samdráttartími er almennt ekki verðbólgutími.
Hér hefur það engu að síður gerst að í miðjum heimsfaraldri – þeim skæðasta í manna minnum – lætur verðbólgudraugurinn á sér kræla.
Hver skyldi vera skýringin á þeirri ógæfu ofan á hina?
Þó að heimsfaraldurinn sé eðli máls samkvæmt utanaðkomandi vandi sem Íslendingar höfðu ekkert með að gera, þá er verðbólgan sjálfskaparvíti.
Hér á landi gerðist það að á sama tíma og atvinnulífið glímdi við margvíslegan vanda fóru forystumenn úr verkalýðshreyfingunni fram af miklu offorsi og óbilgirni og þvinguðu fram launahækkanir sem voru algerlega úr takti við það sem atvinnulífið gat ráðið við.
Seðlabankastjóri hefur bent á að hagsmunaaðilar hér á landi hafi stundum of mikil áhrif „sem séu landinu ekki til heilla“. Vart er til skýrara dæmi um það en fyrrgreindar þvingunaraðgerðir.“