„Kosningar eru enn haldnar og flokkar gefa loforð og landsfundir þeirra samþykkja ályktanir. Jafnvel þeir flokkar sem síst ættu að vera líklegir til þess, gera lítið sem ekkert með slíkar ályktanir og hlýtur því að vera spurning hversu lengi menn nenna að sitja slíka fundi, sem gefið er langt nef daginn eftir fundarslit,“ segir í skrifum Davíðs Oddssonar í Reykjavíkurbréfi morgundagsins.
Nú munu þeir taka til sín sem eiga. Bjarni Benediktsson er skotmark Davíðs fyrrverandi, hins og þessa og nánast alls. Ljóst er að Davíð er lítt hrifinn af hvaða fólk situr á Alþingi:
„Eftir kosningar liggja svo úrslit fyrir þar sem búið er að skipta út um 40 prósentum þingmanna og fá nýja lærlinga inn.“
Ekki er þetta burðugt að mati Davíðs:
„Nú er svo komið að enginn einn flokkur hefur marktæka yfirburði lengur á þingi og hefur það áhrif á kosti til stjórnarmyndunar. Klambra þarf saman ríkisstjórn þriggja eða fjögurra flokka, svo helst minnir á ógæfulega fyrirmynd, borgarstjórn Reykjavíkur. Ríkisstjórnirnar eru veikar og með óljósa stefnu og nú heyrist æ oftar að ráðherra tilkynni, eins og það sé engin frétt, að ekki sé þingmeirihluti fyrir frumvarpi ríkisstjórnar sem þingflokkar hennar höfðu þó samþykkt!“
Davíð er ósanngjarn í garð Bjarna. Bjarni er greinilega sterkari en Davíð virðist halda. Hann ræður ekki bara ríkisstjórninni. Hann ræður líka þingmeirihlutanum. Kannski með örfáum undantekningum. Hitt kann að vera rétt að vilji flokksmanna til að sitja landsfundi flokksins farri þverrandi. Skal engan undra.