Stjórnmál / Einn meginþátturinn með útgáfu Moggans er að verja stjórnarskrána. Að berjast gegn hugsanlegum breytingum á „lýðveldisstjórnarskránni“. Davíð Oddsson þjónar sínum herrum í Reykjavíkurbréfi morgundagsins.
„Jóhönnustjórnin notaði meinlokur eins og fíkniefni að festast í. Ein þeirra var að hér yrði að breyta stjórnarskránni þar sem alþjóðlega bankakerfið fékk skell snemma á nýrri öld sem margur laskaðist í að ósekju. Ótal þjóðir komu sárar frá þeirri kreppu. Engri þeirra datt þó í hug að kenna bæri stjórnarskránni um ófarirnar. Aldrei var reynt að útskýra hér hvað stjórnarskrá lýðveldisins hefði með bankakreppuna að gera. En það skrýtna er að þótt meinlokuliðið sjálft sé að mestu á bak og burt er ruglinu haldið við af þeim sem síst skyldi.
Helst var því haldið á lofti að stjórnarskráin væri gömul og hefði komið frá dönskum kóngi fyrir meira en hundrað árum og hann hefði áður fengið hana frá meginlandinu með áþekkum hætti og Bandaríkjamenn fengu sína. Stjórnarskrá Breta er miklu eldri en allar þessar, og hún hefur elst svo dæmalaust vel vegna þess að þar hefur þeim ekki enn hugkvæmst að færa hana í letur.“