Davíð Oddsson sendir Loga Einarssyni „netta“ sendingu í leiðara dagsins:
„Það kom svo sem ekkert á óvart að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, skyldi tala eins og popúlisti í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Samfylkingin leggur fátt gagnlegt til mála en þrífst helst á hvers kyns lýðskrumi. Umhugsunarvert er að á sama tíma þykjast sumir þingmenn Samfylkingar hafa áhyggjur af uppgangi lýðskrumsflokka, en það er önnur saga.
Logi gekk á forsætisráðherra vegna kjaradeilna sem nú standa yfir og verkfalla sem hafa munu mikil áhrif. Auðvitað hefði formaður Samfylkingarinnar átt að beina fyrirspurninni til flokksbróður síns í ráðhúsinu, en það þjónaði ekki þeim tilgangi að slá sig til riddara á kostnað vitrænnar umræðu.
Verulegt áhyggjuefni er, nú þegar svo erfiðlega horfir í efnahagsmálum og vinnudeilur auka á vandann, að þingmenn og jafnvel flokksleiðtogar skuli ekki sýna ábyrgð og reyna að stuðla að sátt og leita jákvæðrar niðurstöðu. Landsmenn þurfa ekki á því að halda nú að þingmenn reyni að ýta undir ófrið á vinnumarkaði til að lyfta sér upp í popúlísku orðaskaki.“