Stjórnmál „Lækkun tryggingagjalds hefur verið nokkuð til umræðu og virðist sem standa eigi fast á því að verða ekki við slíkum kröfum í fjárlögum næsta árs,“ segir í leiðara Morgunblaðsins í dag, sem er væntanlega skrifaður af Davíð Oddssyni ritstjóra.
Forgangsröðuninni snúið á haus
„Í röksemdum fyrir því að sitja fast við sinn keip hefur fjármálaráðherra bent á að atvinnulífið hafi samþykkt að taka á sig miklar launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum og fyrst það hafi efni á slíkum hækkunum geti og forsvarsmenn þess ekki kvartað undan tryggingagjaldinu.
Því má þó ekki gleyma að í samningunum var forgangsröðinni snúið á haus. Í stað þess að bíða og sjá hvernig samningar tækjust í einkageiranum og nota þá sem fyrirmynd að samningum hjá hinu opinbera var hin leiðin farin. Hið opinbera reið á vaðið og gerði samninga við kennara og lækna, sem urðu að mælistiku í kjarabaráttunni. Frumkvæðið að miklum launahækkunum kom því frá hinu opinbera,“ segir þar ennfremur.
450 milljarða kostnaður
Davíð bendur á, þessu til sönnunnar að kostnaðurinn af þessum hækkunum er að útgjöld Landspítalans vegna kjarasamninganna verða á þessu ári vel á fjórða milljarð króna.“ Munar þar mest um kjarasamninga lækna og skurðlækna. Hækkunin vegna þeirra er 1,6 milljarðar króna.
Samtök atvinnulífsins hafa reiknað út að kostnaður vegna nýrra kjarasamninga verði á núvirði samtals 450 milljarðar króna til ársins 2030 að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, metur það svo að með þessari þróun sé verið að festa í sessi skattahækkanir áranna 2010 til 2011. Atvinnulífið hefur vissulega samið um miklar launahækkanir, en frumkvæðið kom ekki frá einkageiranum. Því er ekki sanngjarnt að setja tryggingagjaldið í það samhengi. Hænan kom nefnilega á undan egginu. Eða var það öfugt?“