„Enginn hafði velt stjórnarskrármálum fyrir sér! Enginn heyrt á það minnst að íslenska stjórnarskráin væri vandræðagripur!“
Þetta er hluti þess sem má lesa í leiðara Moggans í dag. Núverandi eigendur Moggans hafa lýst því yfir að ein helsta ástæða þess að peningum sé ausið í endalausan taprekstur Moggans sé sá að berjast gegn stjórnarskrárbreytingum. Og það er gert.
Davíð amast enn við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms: „Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms var ráðin í því að ganga erinda erlendra fjárglæframanna gagnvart eigin þjóð og gerði tilraun til að hengja skuldir sem glæframenn höfðu sjálfir stofnað til á herðar íslensks almennings. Með því átti að kenna stjórnmálalegum andstæðingum um atferlið og láta slíkar fullyrðingar ganga um langt árabil. Það tókst ekki eins vel og til stóð, þar sem tekið var á móti í því tilviki.“
Hann heldur áfram: „Til hliðar við þetta var soðin upp staða og látið eins og sú væri bein afleiðing af bankaáfallinu hér, þótt það hefði sömu meginástæðu sem gerði vestrænum þjóðum almennt erfitt fyrir. Það var ákveðið að á Íslandi hefði íslenska stjórnarskráin verið undirrót ófaranna!“
Ritstjóranum, sem í dag notar upphrópunarmerki slag í slag, þykir ekki mikið til viðmótskraft nú starfandi stjórnmálafólks koma:
„En engu er líkara en að íslenskir stjórnmálamenn, og jafnvel þeir sem eiga þó að teljast í fremstu röð, séu hræddir þetta hávaðafólk. Það hefur þó enga stöðu nema þennan hávaða.“