Davíð Oddsson, ritstjóri Moggans og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem og forsætisráðherra, leggur Miðflokknum til stuðning við málþófið, eða þingumræðu þingmanna Miðflokksins.
„Innihald umræðunnar er aðalatriðið og hvort næg umræða hafi farið fram og hvort öllum álitaefnum hefur verið svarað. Þá hefur þýðingu, ekki síst þegar um mál eins og þriðja orkupakkann er að ræða, þar sem meirihluti almennings er á öndverðum meiði við meirihluta þingsins, að umræðan hafi skilað sér til almennings og að hann hafi fengið gott tækifæri til að setja sig inn í málin,“ má lesa í Staksteinum dagsins í dag.
Miðflokksmenn hafa sætt mikilli gagnrýni vegna allrar þeirrar umræðu sem þeir hafa staðið fyrir og sagðir hafa hertekið Alþingi. Á meðan komist önnur mál ekki að. Davíð er ósammála þessu. Honum er orkupakkinn ofarlega í huga og hann nánast hvetur til frekar umræðna á þingi:
„Sjálfsagt er að leyfa slíkum málum að gerjast vel í umræðunni og þegar ekkert liggur á en mál er mjög umdeilt, líkt og á við um þriðja orkupakkann, er eðlilegt að leyfa umræðunni að taka sinn tíma, innan þings sem utan.
Í liðinni viku gerðist það til dæmis að ráðherraráð ESB samþykkti fjórða orkupakkann. Ísland þarf að taka afstöðu til hans á allra næstu misserum.
Augljóst er að ýtarleg umræða þarf að fara fram um hann áður en þingið afgreiðir þriðja orkupakkann, enda halda ýmsir því fram að fyrri orkupakkar séu sérstök röksemd fyrir samþykkt þeirra næstu,“ segir í Staksteinum dagsins.
Fundur hefst á Alþingi klukkan þrjú í dag. Byrjað verður að ræða þriðja orkupakkann. Einungis þingmenn Miðflokksins eru á mælendaskrá eins og sjá má hér að neðan.