Stjórnmál
Leiðari Moggans í dag er tröllvaxinn. Þar er fundið að því að Ísland greiddi atkvæði með auknum rétti Palestínu á allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna.
Það er aldeilis ekki allt. Ritstjórinn finnur alvarlega að því að Þórdís utanríkisráðherra hafi ekki haft samráð við utanríkisnefnd Alþingis.
Frægt er þegar ritstjórinn, þá forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson þá utanríkisráðherra, settu Ísland á lista hinna viljugu þjóða þegar ráðist var inn í Írak, spurðu ekki Alþingi og ekki utanríkisnefnd Alþingis. Gáfu öllu batteríinu löngutöng. Hrokinn var ómælanlegur.
Kíkjum á þennan tímamóta leiðara:
„Síðastliðinn föstudag var ályktun um aukinn rétt Palestínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna samþykkt með yfirgnæfandi stuðningi á aukafundi þess. Hún var lögð fram af ríkjum eins og Kína, Kúbu, Líbíu og Jemen, með það að markmiði að Palestína fái fulla og óskoraða aðild að Sameinuðu þjóðunum eins og önnur „friðelskandi ríki“. Eru til meiri öfugmæli um Hamas-stjórnina á Gasasvæðinu? “
Áfram:
„Ísland kaus með ályktuninni, sem virðist launa hryðjuverkaárásina 7. október með því að bjóða ófullvalda ríki, þar sem hryðjuverkasamtök eru við völd, velkomið í alþjóðasamfélagið.
Ályktunin er Sameinuðu þjóðunum til skammar og það er Íslandi til skammar að leggja nafn sitt við hana.“
Það er stórt talað í Hádegismóum:
„Hugsanlega hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra líka skammast sín, því áformin voru ekki rædd opinberlega og eftir því sem næst verður komist voru þau ekki heldur kynnt utanríkismálanefnd Alþingis eins og rétt og skylt er að gera við slíka stefnubreytingu. Því það er stefnubreyting að taka sér stöðu með hryðjuverkaöflum eins og Hamas og bjóða þeim til sætis.“
Heyr á endemi. Sem fyrr segir er þetta skot úr óvæntri átt. Til þess fallið að rifja upp brussugang Davíðs og Halldórs.
„Með fylgdi vandræðalega löng atkvæðaskýring Íslands, sem tiltekur eitt og annað sem ekki felst í ályktuninni. Jú, hryðjuverkin 7. október voru fordæmd, en gagnsókn Ísraela líka og staðhæft að 35 þúsund manns hefðu fyrir vikið fallið á Gasasvæðinu. – Má benda utanríkisráðherra á að Faran Haq, talsmaður Sameinuðu þjóðanna, sagði hinn 8. maí að tölur Hamas væru óáreiðanlegar og staðfest mannfall þriðjungi lægra? Það breytir engu um ályktunina en segir sína sögu um upplýsingaóreiðuna í ráðuneytinu.“
Já, já, Davíð. Það er hreinn hryllingur að sjá myndir af þjóðarmorðinu á Gasa. Þar er ekkert pláss fyrir útúrsnúninga.
Meira úr leiðaranum:
„Utanríkisráðherra gerir mikið úr því að atkvæði Íslands helgist af stuðningi Íslands við „tveggja ríkja lausnina“. Umrædd ályktun er hins vegar andstæð henni og gengur í berhögg við forsendur „kvartettsins“ og Óslóarsamkomulagsins, sem skilyrtu hana friði, viðurkenningu Ísraelsríkis, samningaviðræðum og að fyrri sáttmálar væru virtir. Hamas harðneitar öllu þessu.“
Skrifin enda svona:
„Það kemur engum á óvart, en á hinu áttu færri von, að Ísland tæki sér stöðu með hryðjuverkastefnu Hamas og verðlaunaði illvirkja og endalausan ófrið.“